Fótbolti

Þú getur hjálpað FIFA að velja besta knattspyrnufólk heimsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi á toppi heimsins.
Lionel Messi á toppi heimsins. Vísir/Getty
Knattspyrnuáhugafólk heimsins fær að velja besta knattspyrnumann og konu heimsins fyrir FIFA í ár. Atkvæði fólksins telur með atkvæðum landsliðsþjálfara, landsliðsfyrirliða og fjölmiðlamanna.

FIFA hefur valið sitt besta knattspyrnufólk undanfarin ár í samstarfi með franska fótboltablaðinu France Football en nú hefur slitnað upp úr samstarfinu.

FIFA gaf út í gær hvernig sambandið ætlar að hafa verðlaunaafhendingu sína fyrir árið 2016. Samstarf FIFA og France Football stóð frá 2010 til 2015 en á árunum 1991 til 2009 var Alþjóðaknattspyrnusambandið með sín eigin verðlaun.

France Football hefur afhent Gullbolta sinn frá 1956 og mun nú halda því áfram án þess að FIFA komi eitthvað nálægt því.

Kosningin fer fram í tveimur hlutum og gilda þeir jafnt. Landsliðsþjálfarar og landsliðsfyrirliðar hafa fimmtíu prósent vægi en hin netkosning knattspyrnuáhugafólks og atkvæði tvö hundruð fjölmiðlamanna mun ráða hinum fimmtíu prósentunum.

FIFA mun fyrst tilnefna 23 leikmenn sem verður síðan kosið á milli. Það mun síðan vera tilkynnt 2. desember hvaða þrír verða efstir í kjörinu.

FIFA mun ekki bara velja besta knattspyrnufólk heimsins því sambandið mun einnig afhenda sex önnur verðlaun á verðlaunahátíð sinni sem fer fram í Zürich 9. janúar 2017.

Verðlaun FIFA fyrir knattspyrnuárið 2016 eru:

Besti leikmaður karla

Besti leikmaður kvenna

Besti þjálfari karla

Besti þjálfari kvenna

Flottasta mark ársins

Háttvísiverðlaunin

Stuðningsmannaverðlaunin

Úrvalslið ársins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×