Innlent

Samskiptavilla lengir bið eftir leiðréttingu: „Þetta hefðu getað verið síðustu krónurnar mínar“

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
N1 segir að um mistök sé að ræða
N1 segir að um mistök sé að ræða Vísir/Vilhelm
Sandra Bryndísardóttir greinir frá því í pistli á Facebook að N1 hafi tekið, í meintu heimildarleysi, 25.000 krónur af debetreikningi hennar þegar hún notaði lykil til að greiða bensín fyrir 5000 krónur í gær. Framkvæmdarstjóri einstaklingssviðs N1 segir að um óalgenga villu sé að ræða og að N1 hafi engan hag af mistökunum.

Bent á að tala við bankann

Um var að ræða sjálfsafgreiðslustöð N1 í Hæðasmára. Sandra hafði samband við þjónustufulltrúa hjá N1 þar sem hún hélt að um mistök hefði verið að ræða. Að sögn Söndru sagði umræddur þjónustufulltrúi að þetta væri í raun eðlilegt og að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Upphæðin myndi leggjast aftur inn á reikning hennar eftir tvo til þrjá daga. Þjónustufulltrúinn hvatti hana til að hafa samband við bankann sinn þar sem bankinn ætti að geta leiðrétt þetta.

Guðný Rósa Þorvarðardóttir, framkvæmdarstjóri einstaklingssviðs hjá N1, svarar Söndru í færslunni og segir að um mistök sé að ræða og vill koma fram að N1 stundi það ekki að taka út 25.000 krónur til að eiga inn á reikning í nokkra daga. Hún segir að þegar viðskiptavinir fylli á bensín með sjálfsala og greiði með debetkorti þá sé almennt kallað eftir heimild og tékkað á hvort innistaða sé á reikningnum. Þá fari viðskiptin fram og leiðréttingin einnig. Að sögn Guðnýjar á þetta að gerast á nokkrum mínútum og án þess að viðskiptavinur verði var við. Hér hafði því um villu verið að ræða.

„Í einhverjum tilfellum gerist það því miður að villur í samskiptum verða til þess að lengri tíma tekur fyrir leiðréttingarskeytið að fara á milli. Sem betur fer gerist það afar sjaldan. Í þeim tilfellum sem það gerist hins vegar getur N1 ekki haft áhrif á málin og er það skýringin á því að þjónustufulltrúi biður þig að hafa samband við bankann þar sem viðskiptabanki viðkomandi getur þá leitað upp færsluna í villuskrá og leiðrétt en N1 hefur ekki aðgang að þeirri skrá,“ segir Guðný.

Fær endurgreitt eftir áramót

Vísir hafði samband við Söndru sem segist ekki hafa fengið peningana endurgreidda. Þar spili reyndar inn í að hún lokaði sjálf reikningi sínum eftir að hafa deilt reikningsnúmerinu sínu í fyrrnefndri færslu á Facebook sem fleiri hundruð manns hafa deilt.

„Ég gerði athugasemd við þessa færslu og vildi fá hana bakfærða en þá er það gert sjálfkrafa eftir sjö daga en bankinn getur gert það handvirkt ef það er óskað eftir því,“ segir hún.

Sandra bætir við að hún hefði getað fengið færsluna endurgreidda í dag með því að óska eftir því að það yrði gert handfært. Sandra hafði hins vegar látið loka reikningnum sínum eftir að hafa birt reikningsnúmerið sitt en ekki er hægt að bakfæra fjárhæðina nema inn á sama reikning. Hún segir að svona tilvik séu ekki heppileg sérstaklega ef fólk lendir í þessu sem á ekki mikinn pening.

„Þetta hefðu getað verið síðustu krónurnar mínar,“ segir Sandra og bendir á að þetta sé tími þar sem peningaeyðsla sé almennt mikil á meðal fólks og því muni um hverja krónu.

Hægt er að lesa færsluna hennar Bryndísar hér að neðan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×