Fótbolti

Aron Elís: Ætlum okkur alla leið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Elís var mjög öflugur í seinni hálfleik.
Aron Elís var mjög öflugur í seinni hálfleik. vísir/ernir
Aron Elís Þrándarson sneri aftur á sinn gamla heimavöll í dag þegar íslenska U-21 árs landsliðið lagði Skota að velli, 2-0, í undankeppni EM 2017.

Aron Elís, sem er uppalinn Víkingur, kom Íslandi á bragðið þegar hann skoraði eftir aukaspyrnu Böðvars Böðvarssonar í upphafi seinni hálfleiks.

„Þetta var það sem við stefndum að. Við ætluðum að vinna þennan leik og komast í úrslitaleik um sæti á EM,“ sagði Aron Elís í samtali við Vísi eftir leik.

Aðstæður voru afar erfiðar í dag og frammistaða íslenska liðsins í fyrri hálfleik var ekki góð. En hvað breyttist í seinni hálfleik?

„Það var smá skrekkur í okkur í fyrri hálfleik og þetta var erfitt í vindinum og boltinn var mikið út af. En í seinni hálfleiknum vorum við miklu betri og hefðum getað skorað fleiri mörk,“ sagði Aron Elís.

„Það var mikilvægt að fá mark snemma í seinni hálfleik því við vissum að við værum á móti erfiðum vindi. Ég hafði alltaf trú á því að við værum að fara að klára þetta, jafnvel þegar þeir fengu vítið,“ sagði Aron Elís og vísaði til vítaspyrnunnar sem Rúnar Alex Rúnarsson varði skömmu eftir að hann kom Íslandi yfir.

„Þetta var frábær tímasetning og eftir það fannst mér við allir gefa mikið í. Okkur langaði þetta mikið.“

Framundan er leikur gegn Úkraínumönnum á þriðjudaginn og með sigri þar tryggir Ísland sér sæti á EM í Póllandi á næsta ári.

„Við ætlum okkur alla leið. Við sögðum það í upphafi undankeppninnar og nú erum við komnir í úrslitaleik. Það verður bara spennandi,“ sagði Aron Elís að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×