Talsmenn taívanskra og bandarískra yfirvalda segja frá þessu, en Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, hefur þó hafnað fréttunum og segir þær uppspuna vestrænna fjölmiðla.
Í frétt BBC um málið kemur fram að gervihnattamyndir frá Imagesat International sýni fram á að tveimur skotpöllum fyrir alls sextán flugskeyti hafi verið komið fyrir, auk ratsjárkerfis.
Yongxing-eyja, eða Woody-eyja, er ein Paraceleyjanna sem hafa verið undir stjórn Kína í fjörutíu ár. Taívanir og Víetnamar hafa þó einnig gert tilkall til eyjarinnar.
Um þúsund manns búa á Yongxing-eyju, fyrst og fremst hermenn, iðnaðarmenn og sjómenn.
Fréttirnar berast á sama tíma og leiðtogar ASEAN-ríkjanna hafa komið saman í Kaliforníu til að ræða hvernig draga megi úr spennu í heimshlutanum.