Innlent

Skotárásin í Breiðholti: Annar mannanna enn ófundinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla telur sig vita hver maðurinn er.
Lögregla telur sig vita hver maðurinn er. Vísir/Eyþór Árnason
Lögregla leitar enn að manni sem talinn er eiga aðild að átökunum í Breiðholti á föstudagskvöldið. Lögregla telur sig vita hver maðurinn er en rannsókn málsins er í fullum fangi.

Þetta staðfestir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en hann segir að lögreglu hafi borist talsvert af ábendingum vegna málsins.

Í gær voru karl og kona handtekin vegna málsins en maðurinn er grunaður um að vera annar tveggja sem stóð að skotárásinni en skotið var í átt að bíl. Var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær en konan látin laus.

Lögreglan hvetur hinn manninn sem er grunaður um skotárásina til að gefa sig fram en í gær fannst bíllinn sem skotið var á. Lögregla náði einnig sambandi við þá sem voru í bílnum og sakaði þau ekki.

Á föstudagskvöld barst tilkynning um skothvelli í Fellahverfi Breiðholti. Vitni segja að hópur manna, allt að 30-50, hafði safnast saman fyrir utan söluturniog þar hafi verið mikil um læti áður en heljarinnar slagsmál brutust út.

Hópurinn dreifðist í allar áttir eftir að skotið var tveimur skotum úr haglabyssu í átt að bifreið. Lögregla mætti á svæðið stuttu síðar og hóf leit að þeim sem hlut áttu í máli.

Talið er að atvikið tengist deilum innan þröngs hóps sem beinist ekki að almenningi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×