Viðskipti innlent

Íslensk heimili borga minnst fyrir orkuna

Svavar Hávarðsson skrifar
Mynd/Samorka
Íslensk heimili greiða langminnst fyrir orku- og veituþjónustu á Norðurlöndum. Samanlagt greiða Íslendingar rúmum 400 þúsund krónum minna fyrir kalt og heitt vatn, rafmagn og fráveitu á hverju ári en þar sem þjónustan er dýrust.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja á Íslandi.

Þar segir að sé miðað við heildarreikning fyrir 100 fermetra íbúð og meðalnotkun á ári, greiðir íslenskt heimili um 247.000 krónur fyrir orku- og veituþjónustu. Í Kaupmannahöfn greiða íbúar í sams konar íbúð 655.000 krónur, sem er hæsta verðið á Norðurlöndunum og tæpum 34 þúsundum meira á mánuði en á Íslandi.

Næstmest borga Finnar, eða um 588.000 á ári hverju og Svíar borga 480.000. Orku- og veituþjónusta kostar næstminnst í Noregi, en þar kostar hún 431.000 krónur árlega, sem er þó tæpum 184.000 krónum meira en á Íslandi.

Á heildarreikningi heimilanna munar mestu um verð á heitu vatni. Íslendingar greiða langtum minna fyrir það en aðrir íbúar Norðurlanda. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×