Viðskipti innlent

Heimabankinn getur orðið dýrari fyrir suma

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ekki verður greitt fyrir rafræn skilríki í gegnum farsíma.
Ekki verður greitt fyrir rafræn skilríki í gegnum farsíma. Vísir/EPA
Frá og með áramótum falla auðkennislyklar úr gildi og við taka rafræn skilrík hjá Arion banka og Íslandsbanka, Landsbankinn hætti að nota auðkennislykla fyrir fjórum árum. Rafrænu skilríkin eiga að vera liður í auknu öryggi. Fjármálaráðuneytið gaf út skýrslu um öryggi við innskráningar þar sem kemur fram að rafræn skilríki séu öruggasta leiðin.

Samkvæmt upplýsingum frá Auðkenni verður hægt að borga árgjald fyrirtækisins fyrir persónuleg auðkenniskort með rafrænum skilríkjum, svokölluð einkaskilríki, sem nemur um 1.500 krónum auk 200 króna innheimtugjalds bankans. Hins vegar verður hægt að nota rafræn skilríki í gegnum farsíma án kostnaðar. Stærstu símafyrirtæki landsins, Síminn, Vodafone og Nova, hafa ákveðið að rukka ekki viðskiptavini fyrir þann valkost.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka og Arion banka munu bankarnir því ekki rukka viðskiptavini beint vegna breytinganna.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum geta viðskiptavinir valið hvort þeir skrái sig inn í netbanka eða farsímabanka með því að nota hefðbundna innskráningu sér að kostnaðarlausu eða rafræn skilríki. Rafrænu skilríkin eru gjaldfrjáls af hálfu bankans, en sem fyrr segir þarf að borga árlegt gjald Auðkennis séu þau ekki í gegnum síma.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×