Innlent

Bændur voru tilbúnir að selja hefði rétt verð fengist

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kúabúum hefur fækkað um tvo þriðju frá 1986.
Kúabúum hefur fækkað um tvo þriðju frá 1986. vísir/eyþór
Ljóst er að nokkrir bændur voru tilbúnir til að bregða búi fyrir rétt verð. Þetta segir formaður Landssambands kúabænda, LK.

Síðasti tilboðsmarkaður með greiðslumark mjólkur fór fram í gær en hann var jafnframt sá stærsti frá upphafi. Alls voru 2,7 milljónir lítra seldar en kaupverðið var 555 milljónir króna. Þá höfðu 69 bændur hins vegar boðið fram um 5,9 milljónir lítra til sölu. Alls eru rúmlega 600 kúabú á landinu.

„Ég túlka þetta þannig að talsvert margir hafi verið tilbúnir til að selja ef rétt verð hefði fengist. Í sumum tilfellum fannst ekki rétt verð og þeir bændur halda því áfram búskap,“ segir Arnar Árnason, formaður LK.

Þetta var í síðasta skipti sem bændum gafst kostur á að selja greiðslumark á uppboðsmarkaði. Með breytingum á búvörulögum sem taka gildi um áramótin fara skipti á kvóta fram með innlausnarskyldu ríkisins. Þá verður verðið á mjólkurlítranum í kringum 140 krónur en í fyrradag var meðalverðið á lítranum 205 krónur.

„Árið 2019 munu bændur kjósa um það hvort haldið verði áfram með framleiðslustýringu á mjólk. Einhverjir sáu sér leik á borði að selja núna á markaðsverði og hætta að búa í stað þess að búa í tvö, þrjú ár í viðbót,“ segir Arnar. „Þetta hefur verið þróunin síðan 1986. Kúabændum hefur fækkað um tvo þriðju síðan þá. Áframhaldandi samþjöppun er fyrirséð.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×