Viðskipti innlent

Bætir Søstrene Grene í safnið

Sæunn Gísladóttir skrifar
Kiosk ehf heldur utan um rekstur verslanana Sostrene Grene á Íslandi.
Kiosk ehf heldur utan um rekstur verslanana Sostrene Grene á Íslandi. Vísir/Pjetur
Eignarhaldsfélagið Greenwater sem á og rekur verslanirnar Húsgagnahöllina, Dorma og Betra bak hefur keypt einkahlutafélagið Kiosk sem rekur verslanir Søstrene Grene á Íslandi. Sam­keppnis­eftirlitið hefur fallist á kaupin.

Í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins segir að samrunaaðilarnir, Greenwater og Kiosk, starfi á sömu mörkuðum. Hins vegar hafi ekkert komið fram við rannsókn málsins sem leiði til þess að samrunaaðilar hafi eða muni öðlast markaðsráðandi stöðu á mörkuðum fyrir annars vegar smásölu á húsgögnum eða hins vegar smásölu á smávöru með samruna þessum.

Þess vegna séu engar vísbendingar um það að samruninn komi til með að hindra virka samkeppni. Því sé ekki ástæða til að ógilda hann eða setja skilyrði vegna hans.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Leiðrétting:

Fréttablaðinu barst tilkynning frá Samkeppniseftirlitinu þess efnis að Greenwater hefði keypt alla hluti í Kiosk. Samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kom þetta fram:

„Í því tilviki sem hér er um að ræða hefur Greenwater keypt alla hluti í Kiosk og öðlast þannig yfirráð yfir því félagi og rekstri þess. Samkvæmt samrunaskrá er aðalmarkmið Greenwater með samrunanum að fjárfesta í góðum rekstri Kiosk og reka það með svipuðum hætti og verið hefur en samlegðaráhrif verði takmörkuð og aðallega bundin við stjórnun og umsýslu á skrifstofu. “

Framkvæmdarstjóri Kiosk, Aðalsteinn Þórarinsson, vill þó ekki kannast við þetta og sagði í samtali við Vísi:

„Það eina sem liggur fyrir er þessi úrskurður frá samkeppniseftirlitinu um að samkeppniseftirlitið muni ekki setja sig upp á móti slíkum kaupum ef af yrði.“segir Aðalsteinn og nefnir að ekki liggi fyrir neinn kaupsamningur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×