Viðskipti innlent

Ham­borgara­fabrikkan sölu­hæst í sumar

Sæunn Gísladóttir skrifar
Hamborgarafabrikkan var með 8,7 prósenta hlutdeild 30 söluhæstu staðanna.
Hamborgarafabrikkan var með 8,7 prósenta hlutdeild 30 söluhæstu staðanna. vísir/stefán
Hamborgarafabrikkan var það veitingahús landsins sem Íslendingar versluðu mest við á þriggja mánaða tímabili sem náði til loka september. Samkvæmt niðurstöðum Meniga nam markaðshlutdeild staðarins 8,7 prósentum meðal þrjátíu söluhæstu veitingastaða landsins, en hún dróst saman um 1,2 prósent milli ára.

Næstvinsælasti staðurinn var Grillhúsið með sex prósenta hlutdeild, en hún dróst saman um 0,8 prósent milli ára. Svo voru Vegamót þriðji vinsælasti staðurinn, með 5,8 prósenta hlutdeild og bætti við sig 0,6 prósenta hlutdeild milli ára.

Ljóst er að hamborgarastaðir eru mjög vinsælir, en í fjórða og fimmta sæti eru Greifinn og TGI Fridays, og svo má nefna það að fleiri staðir sem selja hamborgara eru á listanum, til að mynda Roadhouse, Ruby Tuesday og Hamraborg Ísafirði.

Sala til Meniga-notenda á síðasta ári.
Grillstaðir almennt eru vinsælir en Bautinn Grill er með 3,3 prósenta hlutdeild, Rub 23 er með 2,9 prósenta hlutdeild og Grillmarkaðurinn með 2,8 prósent.

Hlutdeild Kringlukráarinnar eykst mest milli ára, eða um 1,4 prósent. Hlutdeild Hamborgara­fabrikkunnar dregst aftur á móti mest saman milli ára.

Sala hjá vinsælustu þrjátíu stöðunum nam 650 milljónum árið 2015, meðal notenda Meniga, og jókst um 17,5 prósent milli ára.

Sala Hamborgarafabrikkunnar til notenda Meniga nam 41 milljón árið 2015 og jókst um 8,3 prósent. Sala Grillhússins nam 23 milljónum og jókst um 60,8 prósent, sala Greifans nam 22 milljónum og jókst um 9,1 prósent milli ára.

Langmest er hlutfallsleg söluaukning hjá Apótekinu, en hún dregst mest saman eða um 13,3 prósent hjá Grillmarkaðnum.

Úrvinnsla Meniga byggir á tölfræðilegum samantektum sem aldrei eru persónugreinanlegar. Við skilgreiningu á veitingahúsi er miðað við staði sem sérhæfa sig í mat sem snæddur er á staðnum, sem sérhæfa sig ekki fyrst og fremst í sölu áfengis eða skyndibita. Allir veitingastaðir sem reknir eru undir sama merkinu eru taldir með.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×