Erlent

„Stærsta og flóknasta vandamál sem við höfum séð á þessari öld“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lars Løkke Rasmussen talaði frá Christansborg í dag.
Lars Løkke Rasmussen talaði frá Christansborg í dag. skjáskot
Dönsk stjórnvöld hafa ákveðið að taka upp tímabundið landamæraeftirlit við landamærin að Þýskalandi. Þetta kom fram í máli Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í dag.

„Þetta er stórt skref og það skal skoðast út frá þeim alvarlega flóttamannavanda sem Evrópa fæst við. Þetta er stærsta og flóknasta vandamál sem við höfum séð á þessari öld, sagði Løkke í dag.

Frá því í byrjun september hafa rúmlega 91 þúsund flóttamenn komið til Danmerkur, þar af hafa 13 þúsund sótt um hæli í landinu. Flestir flóttamannanna halda þó för sinni áfram til Svíþjóðar og Noregs, að sögn forsætisráðherrans.

Sjá einnig: Hert landamæragæsla við Eyrarsundsbrú hefur mikil áhrif á atvinnulíf

Hið tímabundna landamæraeftirlit mun fyrst vara í 10 daga með möguleika á framlengingu um aðra 10.

Landamæraeftirlitið mun felast í handahófskenndum skoðunum á persónuskilríkjum þeirra sem ferðast fótgangandi á milli landanna er fram kemur í frétt DR um málið. Lögreglan muni því ekki fara fram á að allir sýni skilríki. Flytji einhver einstakling yfir landamærin með ólöglegum hætti má hinn sami búast við sekt upp á 40 þúsund danskar krónur, um 755 þúsund íslenskar krónur.

Áður hefur Svíþjóð ákveðið að taka upp landamæraeftirlit við Eyrarsundsbrúnna. Það þýðir að allir, Íslendingar þar með taldir, þurfa að sýna persónuskilríki vilji þeir ferðast milli Svíþjóðar og Danmerkur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×