Erlent

Eldur rakinn til klæðningar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þetta er í annað sinn á innan við þremur árum sem eldur brýst út í húsinu.
Þetta er í annað sinn á innan við þremur árum sem eldur brýst út í húsinu. vísir/epa
Lögreglan í Dúbaí opnaði í gær götur í kringum Kyndilinn, eitt hæsta hús í heimi. Götum þar var lokað eftir að eldur braust út aðfaranótt föstudagsins og var íbúunum vísað burt úr húsinu.

Bandaríska ABC fréttastofan segir að enginn hafi slasast alvarlega í eldsvoðanum. Þó fengu nokkrir aðhlynningu vegna reykeitrunar. Eldurinn braust út klukkan eitt að staðartíma og var það í annað sinn á innan við þremur árum sem eldur brýst út. Ekki þykir fullvíst um orsök eldsins en klæðning hússins þykir eldfim.

Eldurinn teygði sig upp 40 hæðir hússins á einni hlið þess og tók slökkvistarfið rúma tvo klukkutíma. Klukkan hálf fjögur var tilkynnt að slökkviliðsmenn hefðu náð tökum á eldinum.

Þegar eldur kviknaði í Kyndlinum í febrúar 2015 varð heldur ekki mannskaði. Miklar skemmdir urðu þó og var enn þá verið að gera við þegar eldurinn blossaði upp í fyrrinótt. Í báðum tilfellum vöknuðu íbúar við brunaboða og starfsfólk hússins bankaði á dyr til þess að tryggja að fólk yfirgæfi húsið.

Eldur hefur komið upp í fjölda skýjakljúfa í Sameinuðu arabísku furstadæmunum undanfarin ár. Þar á meðal í 63 hæða hóteli í Dúbaí að kvöldi nýárs árið 2016. Hótelgestir sluppu allir án teljandi meiðsla. Á fimmtudagskvöld kviknaði líka í hótelbyggingu og tók nokkra tíma að slökkva eldinn.

Fyrr á þessu ári voru samþykktar reglur í Dúbaí um að skipta ætti út eldfimri klæðningu fyrir betri klæðingu. Yfirvöld telja að minnst 30 þúsund byggingar í furstadæmunum séu með slíka klæðningu.

Þótt reglurnar hafi tekið gildi er óljóst hvernig yfirvöld eiga að framfylgja þeim og neyða eigendur til að skipta um eldfimu klæðninguna á húsum sínum og setja aðra öruggari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×