Innlent

Maðurinn ekki talinn í lífshættu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssing í gærkvöldi.
Frá vettvangi slyssing í gærkvöldi. Vísir
Maðurinn, sem fluttur var með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi vegna hjólreiðaslyssins við Skálholtsveg í gær, er ekki talinn í lífshættu. Mótshaldari segist innilega þakklátur fyrir að betur hafi farið en á horfðist í gærkvöldi.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við Vísi að maðurinn, sem slasaðist mest þeirra fimm er lentu í slysinu í gær, sé ekki lífshættu.

„Þetta eru höfuðáverkar en hann er ekki talinn í lífshættu,“ segir Þorgrímur. Þá býst hann ekki við að neinar nýjar fréttir fáist um líðan mannsins fyrr en á morgun.



Dekk eins hjólsins fór ofan í rauf á kindahliði eins og sést á meðfylgjandi mynd frá vettvangi í gær.Vísir
Betur fór en á horfðist ef marka má fregnir frá þeim slösuðu

Einar Bárðarson, eigandi KIA Gullhringsins, áréttar í samtali við Vísi að allir hlutaðeigandi séu í miklu áfalli. Þá segir hann að betur hafi farið en á horfðist í gær ef marka má myndir af þeim sem eru nú útskrifaðir af sjúkrahúsi.

„Við erum ekki með neinar nýjar upplýsingar annað en að það eru allir í miklu áfalli, bæði við mótshaldarar erum slegnir og ættingjar og vinir þeirra sem lentu í þessu,“ segir Einar.

„Við höfum verið að fá myndir af þeim sem koma út af sjúkrahúsinu og við erum þakklát fyrir að ekki fór verr.“

Þá vill hann aftur þakka viðbragðsaðilum á svæðinu í gær fyrir fagmannleg vinnubrögð.

„Ég ítreka aftur þakkir til viðbragðsaðila í Árnessýslu og bara ótrúlegt hvernig allir þessir aðilar komu á innan við 10 mínútum á þennan afskekkta stað. Það er bara kraftaverk,“ segir Einar þakklátur.

Komið hefur í ljós að slysið varð eftir að dekk fór ofan í rauf á kindahliði eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Slysið varð á Skálholtsvegi við Brúará í gærkvöldi er fimm keppendur í Gullhringnum skullu saman.


Tengdar fréttir

Hjólreiðaslysið rakið til kindahliðs

Eigandi hjólareiðakeppninnar KIA-Gullhringsins segir að verið sé að skoða hvort keppnishaldarar hefðu geta gert eitthvað til að koma í veg fyrir hjólreiðarslys sem var í gærkvöldi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×