Innlent

Óþvegið salat olli niðurgangi kennara

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nemendur í Hvassaleiti mæta til leiks á fimmtudaginn en ekki á morgun vegna veikinda starfsfólks.
Nemendur í Hvassaleiti mæta til leiks á fimmtudaginn en ekki á morgun vegna veikinda starfsfólks. Vísir/GVA
Niðurstöður rannsókna Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur gefa til kynna að neysla óþvegins salats sé orsök matarsýkingar sem varð þess valdandi að fjöldi kennara við Hvassaleitishluta Háaleitisskóla fékk magapest.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landlækni. Þar segir að salat úr sömu framleiðslulotu hafði líka verið borið fram um svipað leyti í Hörðuvallaskóla. Rannsóknir á óþvegnu salati frá sama framleiðanda og það sem boðið var uppá í báðum skólunum hafa leitt í ljós hugsanlegan sýkingarvald, bakteríuna Aeromonas hydrophila sem þekkt er að getur valdið veikindum eins og um ræðir.

Fresta þurfti skólasetningu í Hvassaleitishluta Háaleitisskóla í síðustu viku vegna þess að meirihluti starfsfólks skólans veiktist af magapest, en alls veiktust 26 af 36 manna starfsfólki skólans. Einkenni magapestarinnar voru magaóþægindi og niðurgangur sem varir í nokkra daga.

Í tilkynningunni segir að veikum starfsmönnum sé ráðlagt að halda sig heima meðan niðurgangurinn gengur yfir og að auki í einn dag til viðbótar. Ef einkenni vara lengur en viku eða alvarleg veikindi koma upp getur verið ástæða til að jafnvel annars hraustir einstaklingar fái meðferð.

Vill Sóttvarnarlæknir einnig vekja athygli á eftirfarandi leiðbeiningum, þar sem farið er yfir nokkur heilræði um meðferð grænmetis sem nota á í ferskt salat, sem og hvatt er til almenns hreinlætis og handþvottar og að farið sé eftir leiðbeiningum um meðferð matvæla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×