Innlent

Skipverjar á Nonna Hebba slökktu eld um borð í bátnum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Nonni Hebba er fjörutíu brúttótonna fiskibátur.
Nonni Hebba er fjörutíu brúttótonna fiskibátur. sigurður bergþórsson
Eldur kom upp í vélarrúmi bátsins Nonna Hebba BA laust fyrir klukkan tvö í dag. Þrír voru um borð í bátnum, sem var um tvær sjómílur frá Tálknafirði.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði út björgunarsveit og slökkvilið á Tálknafirði sem og þyrlu gæslunnar og björgunarskipið Vörð á Patreksfirði. Skipverjum tókst sjálfum að loka rýminu þar sem eldurinn var og þyrlan var í kjölfarið afturkölluð. Vörður hélt hins vegar ferð sinni áfram að bátnum.

Tæpum hálftíma eftir að tilkynning um eldinn barst lagði Nonni Hebba að bryggju á Tálknafirði þar sem slökkviliðið beið.

Ekkert amar að skipverjunum en í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að þeir hafi sýnt mikið snarræði og hárrétt viðbrögð þegar þeir réðu niðurlögum eldsins sjálfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×