Innlent

Íslenska ríkið sýknað af kröfu Svavars Halldórssonar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svavar Halldórsson fyrrverandi fréttamaður á RÚV.
Svavar Halldórsson fyrrverandi fréttamaður á RÚV.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið braut ekki gegn tjáningarfrelsi Svavars Halldórssonar, þáverandi fréttamanns Ríkisútvarpsins, þegar hann var dæmdur í Hæstarétti í nóvember 2012 fyrir að greiða Jóni Ásgeiri Jóhannessyni 300 þúsund krónur í skaðabætur vegna fréttar um hann.

Þá voru ummæli sem höfð voru um Jón Ásgeir í frétt Svavars dæmd dauð og ómerk í Hæstarétti, en fyrst var greint frá niðurstöðu Mannréttindadómstólsins á vef RÚV.

Svavar krafðist ómerkingar á dómi Hæstaréttar fyrir Mannréttindadómstólnum sem féllst ekki á þá kröfu. Taldi dómstóllinn að dómur Hæstaréttar hefði ekki brotið gegn 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um tjáningarfrelsi og þá taldi dómstóllinn heldur ekki að skaðabæturnar sem Svavari var gert að greiða hefðu „kælandi áhrif“ á frelsi fjölmiðla.

Var talinn hafa borið Jóni Ásgeiri á brýn refsiverða háttsemi

Málið sneri að frétt sem birtist í kvöldfréttum RÚV þann 6. desember 2010 og fjallaði um Fons, félag Pálma Haraldssonar, og þriggja milljarða króna lán félagsins til Pace Associates sem var skráð í Panama.

 

Í fréttinni kom fram að Landsbankinn hefði stofnað Pace Associates þegar hann var kominn út fyrir heimildir til að lána beint til fasteignasjóðs á Indlandi. Baugur, Hannes Smárason og Kevin Stanford hafi verið hluthafar í sjóðnum og hafi féð á endanum runnið í vasa þeirra Pálma, Jóns Ásgeirs og Hannesar Smárasonar.

Lán Fons var veitt Pace Associates í gegnum Landsbankann í Lúxemborg.

Höfðaði Jón Ásgeir mál á hendur Svavari vegna eftirfarandi ummæla í fréttinni:

„Fons er á hinn bóginn gjaldþrota og þrotabúið leitar fjárins. Það hafa yfirvöld hér á landi líka gert, eins og við höfum áður greint frá, og þau telja sig komin á slóð peninganna, enda hafa þau undir höndum gögn sem benda til þess að þeir Pálmi, Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason, hafi skipulagt Panama-fléttuna fyrirfram. Það er að koma peningunum út til Panama en síðan hafi féð ratað aftur eftir krókaleiðum í vasa þremenninganna.“

Í dómi Hæstaréttar sagði að ummælin yrðu ekki skilin á annan veg en að með þeim væri verið að bera Jón Ásgeir á brýn háttsemi sem væri refsiverð. Var Svavar ekki talinn hafa sýnt fram á að fullyrðingin ætti við rök að styðjast og þar af leiðandi voru ummælin dæmd dauð og ómerk.

Dóm Mannréttindadómstóls Evrópu má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×