Innlent

Sex ára drengur stakk sig á notaðri sprautunál fyrir utan Kársnesskóla

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sonur Helgu Hrannar Þórsdóttir stakk sig á notaðri sprautu á skólalóð á föstudag.
Sonur Helgu Hrannar Þórsdóttir stakk sig á notaðri sprautu á skólalóð á föstudag. Helga Hrönn
Nemendur í fyrsta bekk í Kársnesskóla í Kópavogi fundu notaða sprautu á skólalóðinni á föstudag og einn drengur stakk sig á henni. Helga Hrönn Þórsdóttir móðir drengsins segir í samtali við Vísi að atvikið hafi átt sér stað í frímínútum á skólatíma en drengurinn er aðeins sex ára gamall. Hún telur að drengurinn sem var með honum hafi ekki snert sprautuna.

„Það var náttúrulega hringt strax í mig og ég fór með hann upp á spítala og þar voru gerðar viðeigandi ráðstafanir eins og blóðprufur og bólusetningar.“

Bið eftir niðurstöðum um möguleg smit

Sprautan hafði augljóslega verið notuð og svo skilin eftir við skólann. Ekki er vitað hvað sprautan hafði verið lengi á skólalóðinni þegar drengirnir fundu hana. Helga Hrönn segir að þau fái ekki niðurstöðurnar strax um það hvort það hafi orðið einhver smit vegna nálarinnar.

„Það eru kannski ekki miklar líkur á því en maður veit það ekki.“

Helga Hrönn er sjálf gjörgæsluhjúkrunarfræðingur hjá Landspítalanum svo hún segist hafa gert sér strax grein fyrir alvarleika málsins en sonur hennar hafi ekki áttað sig á því enda aðeins sex ára gamall.

„Hann bar sig mjög vel miðað við aðstæður. Þessu bjóst ég aldrei við að barnið mitt myndi lenda í og var ekki búin að undirbúa mig undir það.”

Mikilvægt að fræða

Helga Hrönn hafði ekki rætt við drenginn sinn um sprautunálar þar sem hann er svo ungur. 

„Það er svo margt annað sem við höfum rætt en ekki þetta.“

Hún segir mjög mikilvægt að foreldrar ræði þessa hættu við börnin sín og að starfsmenn í skólum og leikskólum séu líka vel vakandi fyrir þessu.

„Þetta er bara alveg hræðilegt og það er mikilvægt fyrir okkur sem foreldra að fræða börnin okkar svo þau lendi ekki í þessu. Starfsmenn skólans þurfa líka að fylgjast með hvað er að gerast í kringum skólann. Þetta getur gerst á fleiri stöðum, á róluvöllum og leikskólum líka. Það er líka mikilvægt fyrir starfsfólkið að fylgjast vel með.“

Sprautan sem drengirnir fundu á skólalóðinni.Helga Hrönn
Íhuga að setja upp öryggismyndavélar

Björg Baldursdóttir skólastjóri Kársnesskóla staðfestir í samtali við Vísi að sprautan hafi fundist á föstudag og segir að málið setji að sér óhug.  

„Við kemdum alla lóðina á föstudaginn. Við höfum gert allar varúðarráðstafanir og erum núna að möguleikann á því að setja upp myndavélar við skólann. Það er hrikalegt að eiga við þetta og alveg ömurlegt þegar svona kemur upp í umhverfi barna, maður verður alveg brjálaður yfir þessu.“

Hún segir mikilvægt að vera vakandi og að foreldrar ræði þetta við börnin sín.

„Það skiptir máli að allir séu á varðbergi því börn eru í eðli sínu forvitin. Eðlilega eru þau að skoða umhverfi sitt en við verðum einhvern vegin að koma í veg fyrir að þau skaði sig á því. Við sendum póst á alla foreldra og báðum þau að ræða þetta við sín börn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×