Innlent

Engin gjaldskrá um dagpeninga fanga er í gildi

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Fangar fá að hámarki 3.150 krónur í dagpening á viku.
Fangar fá að hámarki 3.150 krónur í dagpening á viku. Vísir/Vilhelm
Engin gjaldskrá er lengur í gildi um þóknun og dagpening fanga. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis frá 23. desember síðastliðnum.

Forsaga málsins er sú að Afstaða – félag fanga, lagði fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis árið 2014 vegna þágildandi gjaldskrár en félagsmenn gerðu athugasemdir við fjárhæðir gjaldskrárinnar.

Upphæðin dugir ekki til framfærslu að sögn fanga

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, segir í samtali við Vísi að félagið hefði gert athugasemdir vegna þess að gjaldskráin hafi ekki verið endurskoðuð í ellefu ár en upphæð dagpeninganna var síðast hækkuð árið 2006. Að mati Guðmundar og duga dagpeningarnir tæplega til framfærslu.

„Það getur enginn framfleytt sér á svo lágri upphæð, hvorki fangar né aðrir,“ segir hann.  

Í lögum um fullnustu refsinga segir að dagpeningar og þóknun til fanga eigi „að miðast við að fangi eigi fyrir brýnustu nauðsynjum til persónulegrar umhirðu.”

Í dag fá fangar að hámarki 3.150 krónur í dagpening á viku, eða rúmlega 12 þúsund krónur á mánuði. Að sögn Guðmundar fá þeir sem „stimpla sig inn“ daglega hámarksþóknun en aðrir fá minna. „Stórir hópar fanga ráða ekki við að stimpla sig inn dag hvern. Í fangelsum eru menn í alls konar ástandi. Veikindi eða hræðsla getur spilað þar inn í, það eru ýmsar ástæður fyrir því að menn geti ekki stimplað sig,“ fullyrðir Guðmundur.

Fangar kærðu þetta fyrirkomulag til Fangelsismálastofnunar árið 2015. 

Hann gagnrýnir það jafnframt að engin ákvæði séu um það að gjaldskráin sé endurskoðuð reglulega og uppfærð í samræmi við almennt verðlag.

Engin gjaldskrá í gildi

Umboðsmaður Alþingis tók í áliti sínu ekki afstöðu til efnislegs inntaks gjaldskrárinnar, það er að segja hvort fjárhæð dagpeninga mánaðarlega sé nægilega há miðað við lagalegan tilgang þeirra.

Hins vegar er það mat hans að gjaldskrá um þóknun og dagpening fanga sem sett var á grundvelli eldri laga um fullnustu refsinga ætti sér ekki lengur lagastoð eftir að ný lög um fullnustu refsinga tóku gildi í fyrra.

Í lögunum er það nýmæli að innanríkisráðherra eigi að setja gjaldskrána í stað Fangelsismálastofnunar, líkt og eldri lög gerðu ráð fyrir.

Innanríkisráðuneytið hefur hins vegar ekki enn sett nýja gjaldskrá á grundvelli laganna og því er í raun og veru engin gjaldskrá um dagpening og þóknun fanga í gildi.

Umboðsmaður Alþingis gerir athugasemd við drátt stjórnvalda á setningu gjaldskrárinnar og beinir þeim tilmælum til innanríkisráðuneytisins að hún verði sett án frekari tafa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×