Innlent

Ekki einfalt mál fyrir neytendur að sniðganga vörur frá Kína

Birgir Olgeirsson skrifar
Ólafur Stephensen segir nokkuð stórar línur dregnar í tilmælum Einars Sveinbjörnsson þar ekki sé tekið tillit til hvað hve flókið alþjóðlegt viðskiptaumhverfi er orðið.
Ólafur Stephensen segir nokkuð stórar línur dregnar í tilmælum Einars Sveinbjörnsson þar ekki sé tekið tillit til hvað hve flókið alþjóðlegt viðskiptaumhverfi er orðið. Vísir/RÚV
„Þessi tilmæli eru eflaust fallega hugsuð og sett fram af fallegum hug og í göfugum tilgangi, hins vegar er hið alþjóðlega viðskiptaumhverfi orðið þannig að ég held að þetta yrði afskaplega flókið í framkvæmd fyrir neytandann,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri íslensk - kínverska viðskiptaráðsins.

Tilefnið eru tilmæli Einars Sveinbjörnsson veðurfræðings til áhorfenda í veðurfréttatíma Sjónvarpsins í vikunni um að hætta að versla vörur frá Kína í baráttunni við gróðurhúsaáhrif.

Sagði Einar Kínverja brenna kolum við framleiðslu á vörum sem er afar mengandi og sagði hann eina leiðina til að berjast gegn hlýnun jarðar að hætta að versla vörur frá Kína.

Ólafur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda sem hýsir Íslensk - kínverska viðskiptaráðið, og er Ólafur því einnig framkvæmdastjóri ráðsins.

Líkt og Ólafur sagði gæti það að sniðganga vörur frá Kína orðið nokkuð flókið í framkvæmd fyrir neytendur. Margar vestrænar vörur eru framleiddar í Kína, þar á meðal íslenskur útivistarfatnaður, vörur frá Apple og Samsung, allskyns raftæki, fatnaður og fleira.

„Og Kínverjar eru ekki einu skúrkarnir í þessu máli. Þeir nota vissulega mikið af kolum en það gera líka önnur ríki. Kínverjar eru líka að byggja upp endurnýjanlega orkugjafa og meðal annars í samstarfi við íslenska aðila,“ segir Ólafur.

Hann tekur fram að neytendur vilji auðvitað gjarnan afla sér upplýsinga um kolefnispor og vistspor vara sem þeir kaupa.

„Það er ekki alltaf einfalt mál. Leiðin í því er frekar alþjóðlega viðurkenndar vottanir frekar en að neytendur stökkvi á svona tilmæli þar sem eru dregnar afskaplega stórar línur og ekki tekið tillit til þess hvað þessi veruleiki er flókinn. Það að varan sé framleidd í Kína eða einhvers staðar annars staðar er engin bein vísbending um vistspor hennar,“ segir Ólafur.


Tengdar fréttir

Kínverjar virðast sniðganga Einar

Hvorki utanríkisráðuneytið né sendiráð Íslands í Kína hafa orðið vör við að tillaga Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings, um að sniðganga ætti vörur frá Kína dragi dilk á eftir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×