Erlent

Þremur úr áhöfn Polar Nanoq vikið frá störfum vegna neyslu hass

Atli Ísleifsson skrifar
Grænlenski togarinn Polar Nanoq.
Grænlenski togarinn Polar Nanoq. Vísir/Vilhelm
Þremur mönnum úr áhöfn grænlenska togarans Polar Nanoq hefur verið vikið frá störfum vegna neyslu hass um borð.

Grænlenski fjölmiðillinn Sermitsiaq greinir frá því að útgerðarfyrirtæki Polar Nanoq, Polar Seafood, hafi látið skipverja gangast undir fíkniefnapróf síðastliðinn laugardag þar sem í ljós hafi komið að þrír af 26 hafi neytt hass um borð.

Í yfirlýsingu frá Polar Peafood kemur fram að mennirnir hafi verið látnir yfirgefa skipið í næstu höfn. Þá segir að nokkrum dögum fyrr höfðu áhafnarmeðlimir annars togara félagsins einnig gengist undir fíkniefnapróf en þau próf hafi öll reynst neikvæð.

Togarinn Polar Nanoq komst í fréttir fyrr á árinu eftir að skipverji í áhöfn skipsins var handtekinn af lögreglu á Íslandi vegna gruns um að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana. Þá fundust um 23 kíló af hassi í káetu umrædds skipverja. Sagði í ákæru að maðurinn hugðist flytja til Grænlands í ágóðaskyni, en efnin eru metin á um 228 milljónir króna sé miðað við götuverð á fíkniefninu í Nuuk.

Stefna Polar Seafood er að engin fíkniefnaneysla sé heimil um borð í skipum félagsins. Togarar séu hættulegir vinnustaðir þar sem allir eigi alltaf að getað stólað hver á annan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×