Innlent

Rúmlega fjórðungur íslenskra barna á aldrinum 5 til 8 ára á sína eigin spjaldtölvu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rannsókn Steingerðar snýr að miðlanotkun barna á aldrinum 0 til 8 ára.
Rannsókn Steingerðar snýr að miðlanotkun barna á aldrinum 0 til 8 ára. vísir/getty
27 prósent íslenskra barna á aldrinum 5 til 8 ára sem tóku þátt í rannsókn Steingerðar Ólafsdóttur, lektors við Háskóla Íslands, eiga sína eigin spjaldtölvu og 85 prósent þeirra hafa aðgang að spjaldtölvu. Þá nota yfir 30 prósent barna á fyrsta og öðru aldursári spjaldtölvu eða tölvu.

 

Steingerður, sem er lektor á Menntavísindasviði, kynnir fyrsta yfirlit úr rannsókn sinni á Menntakviku, árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs, á morgun. Rannsóknin er unnin í samstarfi við skóla-og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Heimili og skóla, SAFT.

 

„Rannsóknin snýr að miðlanotkun 0 til 8 ára barna. Ég skoðaði hvaða tæki og miðla börnin nota, hvaða tæki þau eiga eða hafa aðgang að. Þá var ég einnig að kanna viðhorf foreldra. Það voru sendir út 1448 spurningalistar og svör bárust frá 860 foreldrum svo svarhlutfallið var 59 prósent,“ segir Steingerður í samtali við Vísi.

Steingerður Ólafsdóttir, lektor.
85 prósent barna á aldrinum 5 til 8 ára hafa aðgang að spjaldtölvu samkvæmt rannsókn Steingerðar, það er samtals þau sem eiga sína eigin spjaldtölvu og þau sem hafa aðgang að henni heima hjá sér.. 10 prósent barna á aldrinum 2 til 4 eiga síðan sína eigin spjaldtölvu og samtals hafa 70 prósent þeirra aðgang að spjaldtölvu.

 

Steingerður bendir á að þó að börn hafi aðgang að spjaldtölvu þýði það ekki að þau noti hana. Þá þurfi þetta alls ekki að vera eitthvað slæmt.

„Ég myndi segja að þetta væri veruleikinn á tímum þessara snjalltækja og veruleiki sem foreldrar þurfa að takast á við. Ýmis tækifæri felast í snjalltækjunum og foreldrar ættu að leggja áherslu á að vera me börnunum við miðlanotkun,“

segir Steingerður.

 

Svipaðar rannsóknir hafa verið gerðar í Svíþjóð frá árinu 2010 og er rannsókn Steingerðar að fyrirmynd sænsku fjölmiðlanefndarinnar. Hún segir niðurstöðurnar í nýjustu rannsókninni sem gerð var þar sambærilegar niðurstöðum í íslensku rannsókninni nú.

Eins og áður segir verður rannsóknin kynnt á Menntakviku á morgun en allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×