Innlent

Furðar sig á vinnubrögðum Icewear: Tóku upp auglýsingu á landi í einkaeigu í leyfisleysi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Myndskeiðið var tekið upp á jörð Guðnýjar, með kvígum í hennar eigu í bakgrunni. Guðný furðar sig á því að ekki hafi verið óskað eftir leyfi fyrir auglýsingunni.
Myndskeiðið var tekið upp á jörð Guðnýjar, með kvígum í hennar eigu í bakgrunni. Guðný furðar sig á því að ekki hafi verið óskað eftir leyfi fyrir auglýsingunni. icewear
Guðný Jakobsdóttir, bóndi á Syðri-Knarrartungu á Snæfellsnesi, furðar sig á vinnubrögðum fyrirtækisins Icewear sem á dögunum tók upp auglýsingu á landi í hennar eigu, án þess að hafa óskað eftir leyfi fyrir því. Guðný gaf sig á tal við hópinn sem var að mynda en fékk ekki upplýsingar um að myndatakan væri í auglýsingaskyni, þrátt fyrir að hafa upplýst hópinn um að hún væri eigandi jarðarinnar.

„Ég kom þarna að og kona úr hópnum kom til mín sem sagði mér að það væri smá myndataka þarna í gangi. Ég sagði henni að ég ætti þessar kvígur sem fólkið var að mynda og konan varð þá svolítið skrítin og sagðist bara hafa rekið augun í gripina og langað til að taka mynd,“ segir Guðný, sem segist ekkert hafa spáð frekar í þessari myndatöku.

Guðný segir þó að sér hafi brugðið nokkuð þegar henni var bent á nýjustu auglýsingu fyrirtækisins, sem er myndskeið af umræddum kvígum á hennar jörð. „Þetta snýst fyrst og fremst um ákveðin prinsipp, að bera virðingu fyrir einkaeign. Kvígunum hefði til dæmis getað brugðið við þetta, þannig að það má alveg setja spurningarmerki við svona vinnubrögð,“ segir hún.

Guðmundur Halldór Björnsson, markaðsstjóri Icewear, segir þessa verkferla almennt ekki viðgangast hjá fyrirtækinu, ávallt eigi að biðja um leyfi fyrir slíkum myndatökum. Hann segist ekki hafa náð á hópinn sem hélt utan um verkefnið og getur því ekki svarað til um hvað fór úrskeiðis þarna. Guðmundur hefur hins vegar haft samband við Guðnýju og beðist afsökunar, ásamt því sem henni hafi verið boðið gjafabréf hjá versluninni.

Samkvæmt upplýsingum frá Persónuvernd falla þessar myndbirtingar líklega ekki undir persónuverndarlög. Myndbirtingar á almannafæri séu almennt heimilar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×