Innlent

Vilhjálmur: Kröfur sjómanna ekki að fara að setja íslenska útgerð á hausinn

sunna karen sigurþórsdótitr skrifar
Frá fundi deiluaðila hjá Ríkissáttarsemjara á dögunum. Vilhjálmur er annar frá vinstri.
Frá fundi deiluaðila hjá Ríkissáttarsemjara á dögunum. Vilhjálmur er annar frá vinstri. Vísir/Stefán
Fjórði fundur í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna á jafnmörgum dögum verður haldinn í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan 11 í dag. Eitthvað er farið að þokast í viðræðunum, en að sögn Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, er enn langt í land.

„Það er alveg ljóst að þessi fæðing að nýjum kjarasamningi gengur dálítið erfiðlega og það er ekki farið að sjást í kollinn á nýjum samningi, svo mikið er víst,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir að stóru kröfurnar verði lagðar til hliðar um sinn á meðan reynt sé að ná samkomulagi um þær minni. Í dag verði fæðismál sjómanna rædd, en farið er fram á frítt fæði um borð.

„Þær kröfur sem við höfum lagt fram núna eru skýlausar kröfur sjómanna. Þetta eru hógværar kröfur og útgerðin hefur vel efni á að koma til móts við þær, og það verður hvergi kvikað frá þeim kröfum. [...] Við erum með kolfelldan kjarasamning. Áttatíu prósent sjómanna felldi hann og ef við eigum að ná í gegn kjarasamningi þá verðum við að ná fram þessum atriðum sem við höfum lagt fram.“

Sjómenn hafa þegar fellt tvo kjarasamninga og segir Vilhjálmur ekki koma til greina að láta fella þriðja samninginn, þess vegna muni samninganefndin ekki kvika frá sínum kröfum.

„Hvað eigum við að gera? Eigum við að fara með þriðja samninginn og láta fella hann aftur? Ég segi nei, það er bara tilgangslaust. Útgerðarmenn vita hvað þarf að koma til, til að ganga frá þessum kjarasamningi og það er algjörlega morgunljóst að mínu mati að sá kostnaður sem af því hlýst er ekki að fara að setja íslenska útgerð á hausinn, svo mikið er víst.“  

Vilhjálmur ræddi málin í Bítinu á Bylgjunni í morgun, en hlusta má á viðtalið við hann í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×