Erlent

Írakski herinn ræðst gegn ISIS í Mósúl

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Írakski herinn hóf í dag aðgerðir sínar í þeim tilgangi að ná aftur landsvæði í vesturhluta Mósúlborgar, sem er í norðurhluta Írak, af hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Ríki Íslams. Borgin er eitt af síðustu vígum samtakanna í þéttbýli í Írak. Reuters greinir frá.

Forsætisráðherra landsins, Haider al-Abadi, tilkynnti um aðgerðir hersins í dag, þar sem hann biðlaði til allra sem kæmu að átökunum að virða mannréttindi almennra borgara. Talið er að rúmlega 650.000 almennir borgarar haldi til í vesturhlutanum, þar sem hryðjuverkasamtökin ráða lögum og lofum.

Þannig hefur írakski flugherinn flogið yfir hverfin í vesturhlutanum og hent út þúsunda upplýsingablaða, í tilraun til að koma því til skila til almennra borgara að árás hersins sé yfirvofandi. Bandaríski herinn er sem stendur, með rúmlega 5000 hermenn á svæðinu, írakska hernum til aðstoðar í baráttunni.

Búist er við því að orrustan verði hörð og ekki er ljóst hvenær átökum mun endanlega ljúka í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×