Erlent

Ein þekktasta baráttukonan fyrir rétti kvenna til fóstureyðinga er látin

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
McCorvey, sem var frumkvöðull í réttindabaráttu kvenna en varð seinna trúrækin.
McCorvey, sem var frumkvöðull í réttindabaráttu kvenna en varð seinna trúrækin. Vísir/EPA
Norma McCorvey, einn þekktasti frumkvöðullinn í baráttu kvenna fyrir réttinum til fóstureyðinga í Bandaríkjunum, er látin, 69 ára að aldri. BBC greinir frá.

McCorvey var 25 ára gömul árið 1973 þegar hún stefndi yfirvöldum í Texas-ríki til hæstaréttar Bandaríkjanna undir dulnefninu „Jane Roe“ vegna fóstureyðingarlöggjafar sem kvað á um að fóstureyðingar væru ólöglegar nema í þeim tilvikum þar sem líf móðurinnar var í hættu.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma og er jafnan talið marka vatnaskil í réttindabaráttu kvenna en hæstiréttur kvað á um að yfirvöldum í Texas væri óheimilt að banna konum að gangast undir fóstureyðingu á grundvelli þess að konur ættu að eiga sama valfrelsi í þessum málum líkt og öðrum.

Ástæður þess að McCorvey stefndi ríkinu voru þær að hún hafði árið 1969 orðið ólétt að þriðja barni sínu og var henni gert að eignast barnið, þrátt fyrir að hún hefði ekki áhuga á því. Hún hafði áður logið því að henni hefði verið nauðgað, í tilraun til þess að fá heimild til fóstureyðingar. Hún eignaðist barnið en lét það af hendi til ættleiðingar.

McCorvey átti raunar síðar eftir að verða einkar trúrækin og íhaldssöm manneskja og er hún talin hafa séð eftir gjörðum sínum síðar meir og varð hún andsnúin fóstureyðingum.

Fyrir málaferli McCorvey gegn Texas ríki höfðu sum fylki í Bandaríkjunum þegar hafist handa við að lögleiða fóstureyðingar en fjöldi kvenna þurfti þó að sækja fóstureyðingu með ólöglegum hætti, í óöruggum aðstæðum víðsvegar um Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×