Enski boltinn

Sjáðu frábæran undirbúning Arons Einars í öðru marki Cardiff | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson lagði upp annað mark Cardiff City í 0-2 útisigri á Leeds United í ensku B-deildinni í dag.

Sean Morrison kom Cardiff yfir á 53. mínútu og 16 mínútum síðar bætti Kenneth Zohore öðru marki við.

Aron Einar átti allan heiðurinn að því marki. Landsliðsfyrirliðinn byrjaði á því að stíga leikmann Leeds út, missti svo boltann of langt frá sér en vann hann strax aftur.

Aron Einar lék svo á Kyle Bartley, varnarmann Leeds, og fór með boltann inn á vítateiginn. Þegar markvörðurinn Robert Green kom út á móti lagði Aron Einar boltann út í teiginn á Zohore sem skoraði af öryggi.

Markið og undirbúning Arons Einars má sjá í spilaranum hér að ofan.

Þetta var þriðja stoðsendingin sem Aron Einar gefur á tímabilinu en Akureyringurinn er einnig búinn að skora tvö mörk sjálfur.

Aron Einar hefur verið fastamaður í byrjunarliði Cardiff eftir að Neil Warnock tók við sem knattspyrnustjóri. Landsliðsfyrirliðinn hefur nú verið í byrjunarliðinu í 19 deildarleikjum í röð og staðið fyrir sínu.

Cardiff hefur unnið fimm af síðustu átta leikjum sínum og er komið upp í 14. sæti deildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×