Viðskipti innlent

Stefna enn að álveri í Helguvík þrátt fyrir áföll

Haraldur Guðmundsson skrifar
Framkvæmdir á lóð Norðuráls í Helguvík hafi legið niðri síðustu ár.
Framkvæmdir á lóð Norðuráls í Helguvík hafi legið niðri síðustu ár. Vísir/Ernir
Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segir stjórnendur fyrirtækisins enn vilja kanna hvort ekki sé hægt að afla raforku fyrir álver í Helguvík. Norðurál ætli að halda lóðinni þar áfram þrátt fyrir að bandarískt móðurfélag þess, Century Aluminium, hafi á síðasta ári bókfært ríflega 16 milljarða króna virðisrýrnun vegna Helguvíkurverkefnisins og að ekki liggi fyrir hvaðan verksmiðjan á að fá raforku. 

Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Ragnar segir þar að úrskurður gerðardóms í deilu fyrirtækisins við HS Orku, þar sem orkufyrirtækið losnaði undan raforkusamningi sem það undirritaði við Norðurál árið 2007, hafi vissulega valdið vonbrigðum.

„Við höfum fullan hug á því að kanna hvort við getum ekki aflað okkur orku en það getur tekið tíma,“ segir Ragnar í samtali við Viðskiptablaðið og segir það jákvætt að álverð hafi hækkað að undanförnu.

Norðurál hefur stefnt að byggingu 360 þúsund tonna álvers Helguvík frá árinu 2004. Skóflustunga að fyrsta kerskála álversins var tekin júní 2008 en framkvæmdir á lóð fyrirtækisins stöðvuðust alveg 2013. Álver Norðuráls á Grundartanga er eitt af fjórum álverum Century Aluminium. 


Tengdar fréttir

HS Orka þarf ekki að selja Norðuráli

Gerðardómur hefur komist að þeirri niðurstöðu að orkusölusamningur milli HS Orku og Norðuráls Helguvíkur væri sökum tiltekinna kringumstæðna ekki lengur í gildi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×