Sevilla varð að sætta sig við tap á móti Leicester City í Meistaradeildinni í vikunni en það er svo sannarlega ekkert tap á rekstri félagsins síðan að félagið réð Ramón Rodríguez Verdejo til starfa.
Þvert á móti hefur Ramón Rodríguez Verdejo, oftast kallaður Monchi, grætt ótrúlegar upphæðir á því að kaupa leikmenn ódýrt og selja þá síðan fyrir miklu meiri pening til stærri félaga í Evrópu.
Monchi hefur á sama tíma byggt upp knattspyrnuakademíu félagsins og þrátt fyrir að þurfa alltaf að selja sína bestu leikmenn hefur Sevilla tekist að halda sér í hópi bestu liða Spánar og vann meðal annars Evrópudeildina þrjú undanfarin ár.
Það kemur enginn Evróputitil til Sevilla í ár þökk sé Englandsmeisturum Leicester City en liðið er í þriðja sæti í spænsku deildinni og það koma því nær örugglega fleiri Evrópukvöld á næsta tímabili.
Monchi kom til Sevilla fyrir sautján árum þegar liðið var í spænsku b-deildinni. Liðið fór upp á fyrsta ári og hefur síðan aldrei verið neðar en í tíunda sæti í spænsku deildinni auk þess að vinna Evrópudeildina fimm sinnum og spænska konungsbikarinn tvisvar sinnum.
Fólkið á Squawka.com tók saman þrettán ótrúleg viðskipti Monchi með leikmenn í stöðu sinni sem framkvæmdastjóri Sevilla. Spænska félagið hefur grætt tæpar 136 milljónir punda á því að selja þessa þrettán leikmenn eða um átján milljarða íslenskra króna.
Það má sjá þessa þrettán leikmenn hér fyrir neðan en eins er hægt að lesa meira um þá alla í féttinni á Squawka-síðunni.
Dani Alves
Keyptur frá: Bahia (2002)
Verð: 413 þúsund pund
Seldur til: Barcelona (2008)
Verð: 26,63 milljónir punda
Julio Baptista
Keyptur frá: Sao Paulo (2003)
Verð: 2,63 milljónir punda
Seldur til: Real Madrid (2005)
Verð: 15 milljónir punda
Adriano
Keyptur frá: Coritiba (2004)
Verð: 1,88 milljónir punda
Seldur til: Barcelona (2010)
Verð: 7,13 milljónir punda
Federico Fazio
Keyptur frá: Ferro Carril (2006)
Verð: 600 þúsund pund
Seldur til: Tottenham Hotspur (2014)
Verð: 7,5 milljónir punda
Christian Poulsen
Kom frá: Schalke 04 (2006)
Verð: Frjáls sala
Seldur til: Juventus (2008)
Verð: 7,31 milljónir punda
Seydou Keita
Keyptur frá: Lens (2007)
Verð: 3 milljónir punda
Seldur til: Barcelona (2008)
Verð: 10,5 milljónir punda
Alvaro Negredo
Keyptur frá: Real Madrid (2009)
Verð: 11,75 milljónir punda
Seldur til: Manchester City (2013)
Verð: 18,75 milljónir punda
Gary Medel
Keyptur frá: Universidad Católica (2011)
Verð: 2,25 milljónir punda
Seldur til: Cardiff City (2013)
Verð: 9,75 milljónir punda
Ivan Rakitic
Keyptur frá: Schalke (2010)
Verð: 1,88 milljónir punda
Seldur til: Barcelona (2014)
Verð: 13,5 milljónir punda
Martin Caceres
Keyptur frá: Barcelona (2011)
Verð: 2,25 milljónir punda
Seldur til: Juventus (2012)
Verð: 6 milljónir punda
Geoffrey Kondogbia
Keyptur frá: Lens (2012)
Verð: 3 milljónir punda
Seldur til: Mónakó (2013)
Verð: 15 milljónir punda
Carlos Bacca
Keyptur frá: Club Brugge (2013)
Verð: 5,25 milljónir punda
Seldur til: AC Milan (2015)
Verð: 22,5 milljónir punda
Aleix Vidal
Keyptur frá: Almeria (2014)
Verð: 2,25 milljónir punda
Seldur til: Barcelona (2015)
Verð: 12,75 milljónir punda
Leikmenn keyptir fyrir: 36.353.000 punda
Leikmenn seldir fyrir: 172.320.000 punda
Gróði: 135.967.000 punda
