Viðskipti innlent

Sigríður Klara ráðin forstöðumaður Lífvísindaseturs Háskóla Íslands

Sigríður Klara Böðvarsdóttir.
Sigríður Klara Böðvarsdóttir. HÁSKÓLI ÍSLANDS/Stefán Valsson
Sigríður Klara Böðvarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Lífvísindaseturs Háskóla Íslands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands. Sigríður Klara hefur frá árinu 2013 gegnt stöðu rekstrarstjóra Lífvísindaseturs samhliða rannsóknum en hún hefur um árabil lagt stund á grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini, meðal annars á Rannsóknastofu Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði og við Háskóla Íslands. 

Sigríður Klara lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1995, MS-prófi í plöntuerfðafræði árið 2000 og doktorsprófi í líf- og læknavísindum árið 2008, hvort tveggja frá sama skóla.

„Lífvísindasetur er samstarfsvettvangur vísindamanna í lífvísindum við Háskóla Íslands og samstarfsstofnana. Meginmarkmið setursins er að byggja upp kjarnaeiningar í tækjakosti og aðferðafræði sem nýtist sem flestum og efla þar með rannsóknir og slagkraft íslensks vísindasamfélags á sviði lífvísinda.  

Hlutverk forstöðumanns Lífvísindaseturs er einkum að hafa umsjón með daglegum rekstri auk þess að efla rannsókna- og þróunarstarf innan setursins. Í því felst m.a. fjáröflun og aðstoð við gerð styrkumsókna, umsjón fjármála og útboða t.d. vegna tækjakaupa og reksturs, kynningarstarf og umsjón og ábyrgð á fræðsluverkefnum á vegum stofnunarinnar. Uppbygging Lífvísindaseturs hefur gengið vel að undanförnu og tækjabúnaður aukist talsvert, meðal annars með styrkfé frá Innviðasjóði Vísinda- og tækniráðs. Eitt af mörgum verkefnum Sigríðar Klöru verður að leiða stefnumótun um hvernig viðhaldi tækjanna skuli háttað.

Við Lífvísindasetur starfa um 50 rannsóknahópar og heildarfjöldi starfsmanna er vel á annað hundrað. Þar á meðal er fjöldi nýdoktora og nemenda, bæði innlendra og erlendra meistara- og doktorsnema, segir í tilkynningunni.

Sigríður Klara telur að eitt mikilvægari hlutverkum Lífvísindaseturs sé að halda vel utan um unga fólkið sem er þar að stíga sín fyrstu skref í vísindum. „Þessi hópur heldur uppi rannsóknavirkni háskólanna í lífvísindum með birtingum á sínum rannsóknaniðurstöðum. Það er því okkar áskorun að gera rannsóknarumhverfi þeirra þess eðlis að þau geti verið í samkeppni við það sem best gerist í heiminum,“ segir Sigríður Klara. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×