Innlent

Um 500 manns tóku þátt í árlegri göngu Pieta

Ásgeir Erlendsson skrifar
Gengið var um fimm kílómetra í Laugardal í nótt.
Gengið var um fimm kílómetra í Laugardal í nótt.
Um 500 manns tóku þátt í árlegri göngu Pieta gegn sjálfsvígum í nótt þar sem gengið var úr myrkrinu inn í ljósið. Bjarni Karlsson, prestur og meðlimur í samtökunum, segir nauðsynlegt að hugmyndin um sjálfsvígsforvarnahús verði að veruleika sem fyrst.

Gangan hófst í myrkri klukkan fjögur í nótt en gengin var fimm kílómetra leið frá Holtavegi um Laugardal og inn í ljósið. Tilgangur göngunnar var að tvíþættur. Annars vegar að heiðra minningu þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi og hins vegar að safna fyrir sjálfsvígsforvarnahúsi sem Pieta-samtökin ætla að setja á fót.

Bjarni Karlsson, prestur og meðlimur í samtökunum, var ánægður með þátttökuna í göngunni, en fimm hundruð manns gengu inn í ljósið að þessu sinni.

„Ég er að finna, sjá þessa miklu breiðfylkingu fólks sem á það sameiginlegt að láta sér ekki á sama standa. Þegar þetta hús fæðist – af því að það mun fæðast – þá er það eign þjóðarinnar. Það verður fallegur staður þar sem tekið verður á móti fólki til þess að horfa í augun á einstaklingnum sem er að þjást og vera hjá honum, vera honum samferða, og þola ástandið þar sem gangan út úr myrkrinu hefst alltaf inni í myrkrinu,“ segir Bjarni Karlsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×