Erlent

Stefna á þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu í október

Atli Ísleifsson skrifar
Carles Puigdemont greindi frá ákvörðuninni í morgun.
Carles Puigdemont greindi frá ákvörðuninni í morgun. Vísir/AFP
Carles Puigdemont, leiðtogi Katalóníu, segir að þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Katalóníu muni fara fram þann 1. október næstkomandi. Þetta er gert í trássi við spænsk stjórnvöld.

Í frétt BBC kemur fram að spurningin sem verði lögð fyrir kjósendur í Katalóníu verði: „Vilt þú að Katalónía verði sjálfstætt ríki í formi lýðveldis?“

Spánn er stjórnarskrárbundið konungdæmi og er Katalónía eitt auðugasta landsvæði landsins.

Skoðanakannanir hafa bent til þess að meirihluti Katalóna myndu greiða atkvæði gegn því að lýsa yfir sjálfstæði, þó að flestir séu á því að boða eigi til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Spænska ríkisstjórnin hefur ítrekað lagt áherslu á að sjálfstæðisyfirlýsing myndi brjóta gegn stjórnarskrá landsins. Er því óljóst hvort að þjóðaratkvæðagreiðslan muni yfir höfuð fara fram.

Um 80 prósent Katalóna greiddu atkvæði með því að lýsa yfir sjálfstæði í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í nóvember 2014. Þátttakan var ekki mikil, eða um 36 prósent.

Stjórnlagadómstóll Spánar lýsti atkvæðagreiðsluna ólöglega.

Aðskilnaðarsinnar náðu meirihluta á katalónska héraðsþinginu árið 2015 og hóf þá undirbúning til að vinna að sjálfstæði héraðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×