Erlent

May spáð sigri í kosningunum í dag

Sæunn Gísladóttir skrifar
Bretar ganga til þingkosninga í dag og velja sér forsætisráðherra. Skoðanakannanir benda til þess að Íhaldsflokkurinn muni bera sigur úr býtum og að Thereasa May, leiðtogi hans, verði áfram forsætisráðherra.

Búist var við því að Íhaldsflokkurinn myndi vinna stórsigur þegar May boðaði til kosninganna þann 18. apríl síðastliðinn, þremur árum áður en kosningar áttu að eiga sér stað. Þá mældist Íhaldsflokkurinn með 43 prósenta fylgi en Verkamannaflokkurinn einungis með 25,4 prósenta fylgi. Bilið milli stærstu flokkanna tveggja hefur þó dregist verulega saman undanfarnar vikur. Samkvæmt síðustu könnunum mælist Íhaldsflokkurinn með um 43 prósenta fylgi, en Verkamannaflokkurinn með 37 prósenta fylgi.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur sótt í sig veðrið undanfarnar vikur í kosningabaráttunni og ekki er hægt að útiloka að flokkur hans beri sigur úr býtum. Washington Post greinir frá því að í aðdraganda kosninganna hafi May átt í erfiðleikum með að heilla kjósendur á kosningaviðburðum á meðan Corbyn hafi verið afslappaðri og náð auknum vinsældum.

Búist er við fyrstu niðurstöðum úr kosningunum snemma á föstudagsmorgun. Ef fer sem kannanir segja mun Íhaldsflokkurinn bæta við sig 45 sætum og vera með 375 sæti í breska þinginu. Einnig mun Verkamannaflokkurinn fá fleiri sæti en í kosningunum árið 2015. Spáð er því að Breski sjálfstæðisflokkurinn (UKIP) fái fjögur prósent atkvæða og að Frjálslyndir demókratar fái 8,1 prósent atkvæða.

Washington Post greinir frá því að skoðanakannanir hafi hins vegar ekki verið mjög nákvæmar í að spá fyrir um úrslit í breskum kosningum undanfarin árin. Í þingkosningunum árið 2015 var talið að Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, myndi ná kjöri sem forsætisráðherra en svo varð ekki. Einnig var því ekki spáð að Bretar myndu kjósa að yfirgefa Evrópusambandið sem varð raunin í júní á síðasta ári.

Stóru baráttumálin í þessum kosningum eru meðal annars heilbrigðiskerfið sem Verkamannaflokkurinn vill auka fjárveitingar til, sem og önnur velferðarmál þar sem Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn eru ósammála um fjárveitingar.

Á síðustu þremur mánuðum hafa þrjár hryðjuverkaárásir átt sér stað í Bretlandi og er talið að þetta muni hafa áhrif á kosningarnar. Venjulega hafa slíkar árásir það í för með sér að fylgi íhaldsflokka eykst. May var þó áður innanríkisráðherra og gæti því verið gagnrýnd vegna árásanna þar sem hún sá um fjárveitingar til vopnaðra lögreglumanna á Englandi og í Wales.

Nýr leiðtogi breska þingsins mun leiða þjóðina í Brexit-viðræðum og hafa töluverð áhrif á hvernig samningar verða við önnur Evrópuríki um viðskipti og fólksflutninga á komandi árum.



Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður á Stöð 2.
Mikil spenna í Lundúnum

„Það er mjög góð stemning í Lundúnum og ekki nokkur leið að glöggva sig á því að hér hafi verið framið skelfilegt hryðjuverk fyrir nokkrum dögum síðan. Það er mikil spenna í loftinu í aðdraganda kosninganna. Enda kosningarnar miklu tvísýnni en kannanir bentu til framan af," þetta segir Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður Stöðvar 2, sem staddur er í Lundúnum til að fylgjast með kosningunum.

„Forskot Íhaldsflokksins er komið niður í sex til átta prósentustig. Svo kom könnun frá YouGov sem sýnir að það er enginn með meirihluta á breska þinginu sem væri stórmerkilegt ef það verður niðurstaðan. En þeir nýta nýja tækni við gerð skoðanakannana þannig að það er kannski spurningarmerki sem maður setur við hversu áreiðanleg sú könnun er. En þetta eru mjög spennandi kosningar, það er miklu meiri spenna en fyrirfram var búist við í ljósi þess hversu vel hefur gengið hjá Verkamannaflokknum að saxa á það forskot sem Íhaldsflokkurinn hafði," segir Þorbjörn.

Hann telur að margir samverkandi þættir hafi áhrif á afstöðu breska kjósenda til þessa kosninga. „Menn voru að reyna að byggja á lögreglu og öryggismálum eftir árásina á London Bridge, en svo eru kannanir sem benda til þess að kjósendur séu að láta önnur mál á oddinn."

Þorbjörn segir harða kosningabaráttu standa yfir sem sérstaklega megi lesa út úr umfjöllun götublaðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×