Erlent

Árásin í Kabúl: Tala látinna komin í 150

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin var gerð á Zanbaq-torgi í Kabúl síðastliðinn föstudag.
Árásin var gerð á Zanbaq-torgi í Kabúl síðastliðinn föstudag. Vísir/AFP
Tala látinna eftir sprengjuárásina í afgönsku höfuðborginni Kabúl í síðustu viku er nú komin yfir 150. Frá þessu greindi Ashraf Ghani, forseti landsins, fyrr í dag.

Árásin er þar með sú mannskæðasta í Kabúl frá því að talibanar hröktust frá borginni árið 2001.

Sprengjuárásin var gerð síðastliðinn föstudag í mannmörgu torgi, ekki langt frá stjórnarbyggingum og sendiráðum. Þannig urðu skemmdir á sendiráðsbyggingu Þýskalands og Frakklands í sprengingunni. Sprengiefni hafði þá verið komið fyrir í vörubíl og var hann sprengdur í loft upp.

Að sögn Ghani voru allir hinir látnu afganskir ríkisborgarar. Áður hafði verið greint frá því að níutíu manns hafi látið lífið í árásinni og um 460 særst.

Enginn hópur hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni, en afgönsk yfirvöld hafa bent á talibana og sagt þá ábyrga.

Mikil mótmæli hafa verið í Kabúl síðustu daga þar sem afsagnar ríkisstjórnarinnar er krafist. Alþjóðleg friðarráðstefna fer fram í Kabúl í dag þar sem öryggisgæsla verður mikil.


Tengdar fréttir

Tugir látnir eftir öfluga sprengingu

Gríðaröflug sprengja sprakk í Kabúl, höfuðborg Afganistans í nótt og eru að minnsta kosti áttatíu látnir og 350 særðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×