Erlent

ISIS lýsir yfir ábyrgð á atviki í Melbourne

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregluþjónar athafna sig fyrir utan fjölbýlishúsið í Melbourne eftir atvikið í dag.
Lögregluþjónar athafna sig fyrir utan fjölbýlishúsið í Melbourne eftir atvikið í dag. Vísir/afp
Maður hélt konu í gíslingu í Brighton, úthverfi borgarinnar Melbourne í Ástralíu, í dag. Lögregluyfirvöld segja atvikið í borginni „hryðjuverk.“  Lögregla skaut manninn til bana á vettvangi en annar maður lét einnig lífið í umsátrinu. Reuters greinir frá.

Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á atvikinu en fréttaveita samtakanna, Amaq, segir árásinni hafa verið hrint af stað vegna baráttu ástralskra yfirvalda gegn ISIS.

„Við förum með málið eins og hryðjuverk,“ sagði lögreglustjóri hins ástralska Viktoríufylkis, Graham Ashton, í viðtalið við sjónvarpsstöðina Seven. „Við höldum að þessi manneskja hafi verið þarna með það í huga, þó að við vitum ekki hvort um hafi verið að ræða skipulagða árás eða eitthvað sem ákveðið var í skyndi.“

Lögregla bjargaði konunni, sem árásarmaðurinn hélt í gíslingu í fjölbýlishúsi í Melbourne, en þrír lögreglumenn særðust í umsátrinu. Þá lést annar maður á vettvangi, sem orðið hafði fyrir byssuskoti.

Hátt viðbúnaðarstig hefur verið í Ástralíu síðan hryðjuverkamaður á vegum ISIS tók fjölda fólks í gíslingu á kaffihúsi í Sydney, stærstu borg landsins, í desember 2014. Nú síðast lýstu hryðjuverkasamtökin yfir ábyrgð á árásinni í London sem gerð var á laugardagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×