Innlent

Klerkur lofar kvótakerfið í predikun

Jakob Bjarnar skrifar
Séra Hjálmar Jónsson varaði við öllum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu í sunnudagsmessu í Dómkirkjunni í gær.
Séra Hjálmar Jónsson varaði við öllum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu í sunnudagsmessu í Dómkirkjunni í gær.
Hjálmar Jónsson fyrrverandi Dómkirkjuprestur, ræddi um fiskveiðistjórnunarkerfið í sunnudagspredikun í Dómkirkjunni, sem bar upp á Sjómannadaginn og lofaði það mjög. Séra Hjálmar sagði meðal annars að Kristur hafi talað um það oftar en ekki við lærisveina sína að vera djarfir. Og líkast til má segja að Hjálmar hafi verið djarfur í sinni ræðu, því víst er að það fór um ýmsan manninn í söfnuðinum þegar Hjálmar fór að prísa kvótakerfið sem lengi hefur verið umdeilt.

Hrætt fólk gerir margt í fáti

„Hins vegar hefur íhaldssemi og varkár athugun hefur oft afstýrt óhöppum og afglöpum. Það er eitt að vera varkár, það er annað að vera hræddur. Þetta finnst mér alltaf ástæða til að rifja upp fyrir sjálfum mér þegar ég minnist á fiskveiðistjórnunarkerfið. Hrætt fólk gerir margt í fáti og fljótræði en varkárt fólk metur stöðuna og beitir skynseminni.“

Ekki er hægt að skilja þessi orð á annan veg en að prestur vari mjög við öllum breytingum á kvótakerfinu. Séra Hjálmar, sem var þingmaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 1995 til 2001 en lét af þingmennsku þegar hann fékk Dómkirkjubrauðið, sagði sjávarútveginn okkur sem þjóð afar mikilvægur og rekstur sem honum tengist nær út um allt þjóðfélagið.

„Sjávarútvegurinn er okkur svo mikilvægur, sannarlega er hann það og fyrirkomulagið á sjávarútvegi almennt er líka býsna sameiginleg niðurstaða með okkar þjóð,“ sagði séra Hjálmar í predikun sinni og þuldi upp ýmis samtök og sambönd sem tengjast greininni.

Kvótakerfið grundvallast á lýðræðislegri afstöðu

„Hvað sem líður meiningarmun um einstök atriði og áherslur er kerfið niðurstaða og stjórnmálin löggjafarvaldið setur lagarammann að sjálfsögðu með lýðræðislegum hætti. Með þessu fyrirkomulagi hefur orðið gríðarleg framþróun þessarar þjóðmenningar okkar,“ sagði Hjálmar. Hann hafði nokkur orð um þjóðmenningu almennt áður en hann vék tali sínu af kvótakerfinu aftur og sjávarútveginn:

„Og ég hygg betur rekinn en nokkru sinni fyrr. Þar eiga allir þakkir skyldar. Ánægjulegt að heyra það og verða var við það að orðspor okkar erlendis er gott. Þjóðin nýtur virðingar fyrir ábyrga veiðistjórnun og alhliða sjálfbærni í greininni.“

Hlusta má á messuna alla hér, á vef ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×