Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, er meðal þeirra sem hefur gagnrýnt vopnaburð lögreglu, formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir hefur tekið í sama streng en svo virðist sem málið sé hápólitískt. Hanna Katrín Friðriksdóttir, þingflokksformaður Viðreisnar, segir til skammar hvernig talað er til lögreglunnar.
Skömm að þessu
„Ósköp er hún aum og molbúaleg þessi árátta margra að tala heilu starfsstéttirnar niður og láta eins og þær séu haldnar einhverjum annarlegum hvötum! Við búum t.d. svo vel að eiga þrautþjálfaða lögreglumenn, sem hafa gefið sig í það undarlega djobb að þjóta í áttina að hættu þegar við hin hlaupum í burtu,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir, aðstoðarkona Björgólfs Thors athafnamanns. Ragnhildur er maki Hönnu Katrínar, sem deilir færslu Ragnhildar og fylgir úr hlaði með orðunum: „Það sem frú Ragnhildur segir“.
Og „frú Ragnhildur“ er hvergi nærri hætt að láta skoðun sína á málinu í ljós:
„En hetjurnar við lyklaborðin sletta bara í góm og telja sig þess umkomnar að kalla þetta fólk litla karla sem vilji bara leika sér með byssudótið sitt. Ég held það væri andskotans nær að styðja við bakið á þeim sem gegna þessum störfum í þágu okkar allra, i stað þess að gefa sér fyrirfram að þarna sé einhver hópur á ferð sem geti ekki beðið eftir að misnota aðstöðu sína. Skömm að þessu!“
Lögreglan á betra skilið
Á Facebookvegg Hönnu Katrínar er spurt hvort borgurum beri ekki að vera gagnrýnir út í þann þrönga hóp sem hefur einkaleyfi á ofbeldi, eins og það er orðað, og vopnaburð? Hanna Katrín segir það allt aðra umræðu.
„Hér er fókusinn á þá tilhneigingu að hæðast að fólki sem gegnir þessum störfum. Lögreglan okkar á einfaldlega betra skilið. Það er svo óendanlega hallærislegt þegar fólk tekur þátt í - og telur það væntanlega sniðugt - að tala okkur sjálf niður með þessum hætti.“