Erlent

Púertó Ríkó vill verða 51. ríki Bandaríkjanna

Atli Ísleifsson skrifar
Ricardo Rossello, ríkisstjóri á Púertó Ríkó, á kjörstað í gær.
Ricardo Rossello, ríkisstjóri á Púertó Ríkó, á kjörstað í gær. Vísir/AFP
97,2 prósent þeirra sem þátt tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni á Púertó Ríkó vill að eyjarnar verði hluti af Bandaríkjunum. 1,5 prósent vilja að eyjarnar verði sjálfstæðar og 1,3 prósent vilja að þær verði áfram sérstakt sambandssvæði innan Bandaríkjanna.

Eyjarnar, sem eru í norðurhluta Karíbahafs, eru nú með eigin stjórn en íbúar þess eru þó með bandarískan ríkisborgararétt. 

Kjósendur eru þó ekki þeir sem taka ákvörðun um stöðu Púertó Ríkó innan Bandaríkjanna, heldur er það á könnu Bandaríkjaþings þar sem Repúblikanar eru í meirihluta.

Íbúar á Púertó Ríkó eru að stærstum hluta Demókratar og hafa Repúblikanar því sýnt því takmarkaðan áhuga að tryggja að íbúar þar fái að kjósa í þing- og forsetakosningum í framtíðinni.

Líkt og búist var við var kosningaþátttakan mjög lítil, eða einungis 23 prósent. Ricardo Rossello, ríkisstjóri á Púertó Ríkó segir hins vegar að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar sendi skýr skilaboð til Bandaríkjaþings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×