Fótbolti

Hannes: Þetta var svona augnablik sem mann dreymir bara um að upplifa

Jón Hjörtur Emilsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson fagnar sigri í leikslok með strákunum.
Hannes Þór Halldórsson fagnar sigri í leikslok með strákunum. Vísir/Ernir
„Þetta er frábær tilfinning, þetta gerist bara ekki betra en þetta, þetta var draumkennt augnablik að vinna 1-0, það eru alltaf sætustu sigrarnir fyrir markmenn,“ sagði Hannes Halldórsson eftir 1-0 sigur íslenska landsliðsins í kvöld.

Króatar ógnuðu ekki mikið fram á við og náðu einungis einu skoti á markið. Hannes var mjög ánægður með varnarvinnuna hjá Íslenska landsliðinu. „Þetta er eitt besta lið í heimi og við héldum þeim algjörlega í skefjum. Það er okkar styrkleiki þegar við vinnum svona saman sem ein heild. Mennirnir efst uppá velli eru að vinna óeigingjarna vinnu og það auðveldar mikið fyrir restina af liðinu, svo voru Kári og Raggi eins og klettar í dag.“

Mikið var undir í leik kvöldsins og segir Hannes það gera þetta ennþá sætara. „Í svona leik, sumarkvöld í Laugardalnum, skora í uppbótartíma á móti Króatíu miðað við allt, hvernig staðan var í riðlinum og allt sem var undir. Þetta var svona augnablik sem manni dreymir bara um að upplifa.“

Hannes var gríðarlega ánægður með stuðninginn í kvöld. „Stemningin er búin að vera gjörsamlega stórkostleg síðastliðin 4-5 ár og verður bara alltaf betri, maður er liggur við farin að taka því sem sjálfsögðum hlut núna en maður á náttúrulega ekki að gera það. þetta gefur okkur byr undir báða vængi og við elskum að spila hérna heima og áhorfendur eru stór partur af því.“

En er Hannes farinn að sjá Rússland fyrir sér í hyllingum?

„Ég er með Rússland uppá vegg hjá mér heima og það er markmiðið, þetta er þarna og við ætlum að gera allt sem við getum til að það rætist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×