Viðskipti innlent

Hlutfall reiðufjár í umferð hér með því minnsta sem þekkist

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hugmynd sem fjármálaráherra kynnti um að taka stóra peningaseðla úr umferð mætti andstöðu.
Hugmynd sem fjármálaráherra kynnti um að taka stóra peningaseðla úr umferð mætti andstöðu. VÍSIR/VILHELM
Alls eru tæplega 50 milljarðar af 5 og 10 þúsund króna seðlum í umferð hér á landi. Það eru tæplega 87 prósent af öllum seðlum í umferð og tæp 82 prósent af öllu reiðufé í umferð hér á landi.

Starfshópar á vegum fjármálaráðuneytisins skiluðu í fyrradag skýrslum með ábendingum og leiðum til að koma í veg fyrir skattsvik.

Meðal hugmynda í skýrslunum var að hætta notkun 5 og 10 þúsund króna seðla og fjölga minni seðlum á móti. Þá var einnig lagt til að Seðlabankinn, eða annar opinber aðili, kæmi til með að sjá um útgáfu greiðslukorta.

Hlutfall reiðufjár í umferð er oft metið sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hlutfallið hér á landi hefur yfirleitt verið frekar lágt en aldarfjórðunginn fyrir hrun var það til að mynda yfirleitt í kringum eitt prósent.

Eftir að hrunið skall á var það aukið og hefur að undanförnu verið 2,25 prósent. Hlutfallið er með því lægsta sem þekkist en það er til að mynda um níu prósent á Evrusvæðinu, um sjö prósent í Bandaríkjunum og fjögur prósent á Bretlandseyjum.

Þegar niðurstöður starfshópanna voru kynntar sagði Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, að verið væri að „lýsa bókstaflega yfir stríði“ gegn skattsvikum. Fulltrúa frá Seðlabanka Íslands var ekki að finna í nefndinni.

Óhætt er að segja að tillögurnar sem lutu að reiðufénu hafi fallið í grýttan jarðveg. Gagnrýni fólks var af misjöfnum toga.

Sumir töldu tillögurnar skerða frelsi, aðrir litu til persónuverndarsjónarmiða og enn aðrir höfðu áhyggjur af eldri frændum og frænkum í fermingarveislum framtíðarinnar.

Í raun var jarðvegurinn svo grýttur að ráðherrann var gerður afturreka með hugmyndirnar. Birti hann pistil þess efnis í gær og sagði þjóðina ekki tilbúna í slíkar aðgerðir. Gagnrýnina var ekki síst að finna úr röðum annars stjórnarflokks, Sjálfstæðisflokksins.

Hluti þeirra sem voru andvígir hugmyndinni benti á reynslu Indverja en fyrir hálfu ári tóku stjórnvöld 500 og 1.000 rúpía seðla fyrirvaralaust úr umferð.

Aðgerðin skapaði mikinn glundroða í samfélaginu og lamaði efnahagskerfið um skeið. Ólíkt er hins vegar að sambærileg aðgerð hér á landi myndi hafa svipuð áhrif. Áætlað er að um 90 prósent viðskipta Indverja séu gerð með reiðufé en talan hér á landi er innan við tíu prósent.

Sé litið til nágrannalanda okkar, eða þeirra landa sem Íslendingar skipta einna oftast við, má sjá að í flestum þeirra er stærsti seðillinn ekki langt frá því að vera sambærilegur íslenska Jónasinum um þessar mundir. Evrusvæðið og Sviss bjóða síðan upp á seðla sem eru umtalsvert verðmeiri. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×