Fótbolti

Íslenskt framherjapar í úrvalsliði spekinga TV2

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson og Matthías Vilhjálmsson.
Björn Bergmann Sigurðarson og Matthías Vilhjálmsson. Vísir/Getty
Björn Bergmann Sigurðarson og Matthías Vilhjálmsson hafa farið á kostum með sínum liðum í norsku úrvalsdeildinni en þeir eru báðir í úrvalsliði deildarinnar eftir fyrri umferð.  Björn Bergmann hefur spilað best allra.

Það eru knattspyrnuspekingar TV2 sem völdu íslensku framherjana í úrvalsliðið er þeir eru í þriggja manna framlínu með Ohi Omoijuanfo frá Stabæk.

Matthías Vilhjálmsson og félagar í Rosenborg eru á toppi norsku úrvalsdeildarinnar en Björn Bergmann Sigurðarson og félagar í Molde eru í þriðja sætinu eftir að hafa brunað upp töfluna að undanförnu.

Björn Bergmann skoraði sitt tíunda mark í deildinni um helgina og er annar markahæsti maðurinn en Matthías hefur skorað sex mörk í deildinni og sjö mörk í bikarnum.

Babacar Sarr, fyrrum leikmaður Selfoss og núverandi leikmaður Molde er einnig í þessu úrvalsliði.

Knattspyrnuspekingar TV2 völdu ekki bara besta liðið heldur einnig úrvalslið þeirra sem hafa ollið mestum vonbrigðum. Þar er liðsfélagi Matthíasar í framlínunni en Daninn Nicklas Bendtner hefur ekki heillað spekinga TV2.

Það má finna umfjöllun TV2 um úrvalsliðið hér en þar kemur meðal annars fram að Björn Bergmann hafi verið besti leikmaður deildarinnar í sumar að mati spekinganna.

Matthíasi er hrósað fyrir vinnusemi sína og að hanni hafi búið til níu mörk í deildinni (6 mörk og 3 stoðsendingar) þrátt fyrir að hafa bara verið sjö sinnum í byrjunarliðinu í deildinni.  Spekingar TV2 segja að Íslendingurinn hafi sýnt það og sannað að Rosenborg ætti miklu frekar að treysta á hann frekar en Bendtner.



Úrvalslið TV2 í fyrri umferð norsku úrvalsdeildarinnar:

(Leikkerfið: 3-4-3)

- Markvörður -

Piotr Leciejewski

- Varnarmenn -

Vito Wormgoor

Tore Reginiussen

Sigurd Rosted

- Miðjumenn -

Fredrik Haugen

Babacar Sarr

Anders Trondsen

Daniel Braaten

- Sóknarmenn -

Ohi Omoijuanfo

Björn Bergmann Sigurðarson

Matthías Vilhjálmsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×