Erlent

Dularfullu hljóðvopni mögulega beitt gegn sendiráðsmönnum á Kúbu

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandaríska sendiráðið í Havana. Löndin tvö tóku upp formlegt samband fyrir tveimur árum eftir fimmtíu ára óvild.
Bandaríska sendiráðið í Havana. Löndin tvö tóku upp formlegt samband fyrir tveimur árum eftir fimmtíu ára óvild. Vísir/AFP
Bandarísk stjórnvöld hafa rekið tvo kúbanska erindreka úr landi í kjölfar þess að starfsmenn í sendiráði þeirra í Havana veiktust við undarlegar kringumstæður. Sendiráðsstarfsmennirnir eru sagðir þjást af heyrnartapi.

AP-fréttastofan segir frá því að heyrnartapið gæti tengst einhvers konar leynilegu tæki sem gefur frá sér hljóð sem mannleg heyrn greinir ekki en geta valdið heyrnarleysi.

Haft er eftir ónefndum bandarískum embættismönnum að rannsókn hafi leitt í ljós að slík tæki hafi verið notuð gegn sendiráðsmönnunum annað hvort inni á heimilum þeirra eða fyrir utan þau.

Þriðja ríki gæti borið ábyrgðina

Fimm starfsmenn bandaríska sendiráðsins í Havana, þar á meðal makar, eru sagðir hafa orðið fyrir heyrnartapi, fyrst seint á síðasta ári. Rannsakendur útiloka ekki að útsendarar annars ríkis, til dæmis Rússlands, gætu staðið að baki atvikunum.

Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins segist þó ekki hafa nein skýr svör um orsakir eða uppruna atvikanna á reiðum höndum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Stjórnvöld á Kúbu segja brottrekstur erindreka sinna tilefnislausan en að þau séu að rannsaka málið. Lýsa þau sig reiðubúin að vinna með bandarískum stjórnvöldum að varpa ljósi á það.

„Kúba hefur aldrei og myndi aldrei heimila að kúbanskt landsvæði væri notað undir nokkurs konar aðgerðir gegn opinberum erindrekum eða fjölskyldum þeirra,“ segir utanríkisráðuneyti Kúbu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×