Erlent

Teygði sig eftir kúk og festist í glugga á Tinder-stefnumóti

Samúel Karl Ólason skrifar
Konan sat föst í glugganum í um hálftíma.
Konan sat föst í glugganum í um hálftíma. Liam Smith
Námsmaður í Bretlandi hefur gripið til hópfjáröflunar til að borga fyrir nýja rúðu í íbúð sinni eftir að slökkviliðsmenn þurftu að brjóta hana til að bjarga konu sem varð föst í glugganum. Hann segir konuna hafa fest sig þar eftir að hafa reynt að kasta kúk, sem sturtaðist ekki niður, út um gluggann.

Námsmaðurinn, Liam Smith, og konan höfðu kynnst á Tinder og ákváðu að fara út að borða. Eftir það fóru þau heim til hans og konan fór á klósettið. En hún sneri þó aftur skömmu seinna skömmustulega á svip samkvæmt Liam.

Hún sagðist hafa kúkað og að kúkurinn hefði ekki sturtast niður. Við það hefði hún farið í kerfi og gripið til þess örþrifaráðs að taka kúkinn upp með pappír og kasta honum út um gluggann.

Lítið mál sem varð að stóru máli

Liam sagði það nú vera lítið mál. Þau myndu bara fara út, setja kúkinn í poka, henda honum og gleyma þessu atviki. Fljótt kom þó í ljós að það yrði ekki svo auðvelt.

Glugginn á baðherbergi Liam er í raun tvöfaldur þar sem innri rúðan er opin efst. Svo er þar nokkurra sentímetra bil á milli og ytri rúðan er ekki opnanleg. (Hægt að sjá myndir á hópfjáröflunarsíðunni) Kúkurinn endaði því þar á milli en ekki út í garði.

Því næst segir Liam að hann hafi ætlað sér að brjóta rúðuna til að ná í kúkinn, en konan fékk aðra hugmynd, sem reyndist þó ekki betri. Hún hafði lagt stund á fimleika og var sannfærð um að hún gæti sótt kúkinn.

Hún teygði sig lengra og lengra niður í rými á milli gleranna þar til hún sat þar föst. Liam reyndi að losa hana sjálfur en tókst það ekki. Konunni tókst þó að ná kúkinum og rétta Liam hann.

Slökkviliðsmenn þurftu tíma til að jafna sig

Eftir um fimmtán mínútur sá Liam að það eina í stöðunni var að hringja á slökkvilið. Slökkviliðsmennirnir voru fljótir á vettvang. Hann segir slökkviliðsmennina hafa þurft smá tíma til að jafna sig á því sem þeir sáu, en þeir hafi einungis verið um fimmtán mínútur að losa konuna.

Þeir þurftu þó að brjóta innri rúðuna til að losa hana og Liam segir að það muni kosta 300 pund, rúmar 40 þúsund krónur, að skipta um glerið. Sem fátækur námsmaður hefur hann ekki efni á því og stofnaði hann því hópfjáröflunarsíðu.

Á minna en einum sólarhring hefur Liam safnað nærri því tvö þúsund pundum, sem er töluvert meira en þau tvö hundruð pund sem hann sóttist eftir. Liam og konan hafa sammælst um að deila afganginum á milli tveggja góðgerðarfélaga.

Annað þeirra snýr að því að byggja klósett í þróunarlöndum og hitt aðstoðar slökkviliðsmenn.

Fjölmiðlar ytra hafa margir fjallað um söfnunina og hið undarlega atvik sem leiddi til hennar. Meðal annars hefur Liam farið í viðtal við fréttamenn BBC og sagt sögu sína þar. Slökkviliðið hefur staðfest sögu Liam, samkvæmt BBC.

Liam og konan fóru svo aftur á stefnumót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×