Fótbolti

Aron: Fundurinn með Frey var langur en góður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Vísir/Eyþór
Freyr Alexandersson var að störfum fyrir A-landslið karla um helgina en hann er eins og alkunna er þjálfari kvennalandsliðs Íslands. Freyr greindi leik Úkraínu og Tyrklands og fór yfir úkraínska liðið á fundi með leikmönnum í gær.

„Við vorum með góðan fund í gær með Frey og fórum vel yfir lið Úkraínu,“ sagði Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari.

„Úkraína spilar þannig stíl að það er ekki erfitt að leikgreina þá en þeir eru góðir í því sem þeir gera og erfitt að stöðva þá. Þeim er best lýst þannig,“ sagði Heimir og Aron Einar tók í svipðan streng.

„Maður sér að þeir eru betri í því sem þeir voru góðir í. Þeir hafa náð að spila lengi saman og eru vel æfðir í því sem þeir gera,“ sagði fyrirliðinn. „Þetta var virkilega góður fundur sem við áttum með Frey í gær. Hann var langur, en góður, og við fórum í öll smáatriðin sem hafa skilað okkur árangri hingað til.“

Aron Einar sagði enn fremur að líðan leikmanna væri góð þrátt fyrir tapið á laugardag.

„Maður fann það strax eftir leik að þetta var ekki jafn slæmt og maður upplifði. Andlega hliðin er góð - við erum vanir því að þurfa að gíra okkur upp í næsta leik og sem betur fer eigum við leik strax á morgun til að bæta upp fyrir þetta tap.“

Fundinn má sjá í heild sinni hér efst í fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×