Innlent

Kartöflubóndinn fagnar ótrúlega góðri uppskeru

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hjalti Egilsson, kartöflubóndi á Seljavöllum.
Hjalti Egilsson, kartöflubóndi á Seljavöllum. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Kartöflubændur keppast nú við að ná uppskerunni í hús fyrir haustrigningar og fyrstu frost. Í Nesjum í Hornafirði fagna menn góðri uppskeru en þar er einn stærsti kartöfluræktandi landsins. Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Hjalta Egilsson, kartöflubónda á Seljavöllum. 

Í Nesjahverfi hittum við fimm manna hóp við kartöfluupptöku en Hjalti segir að þar keppist menn við að ná þeim í hús áður en haustrigningar bresta á. Við byrjum á því að spyrja um uppskeruna: 

„Hún er bara ótrúlega góð. Ég er bara mjög ánægður með hana, - sérstaklega af því að við fengum erfitt vor, - mjög votviðrasamt, - þá hefur ræst vel úr uppskeruni. Hún er góð og að mestu leyti komin í hús.“ 

Frá kartöfluupptöku í Nesjum í Hornafirði. Hjalti stýrir traktornum.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Hjalti segir Hornafjörð vel fallinn til kartöfluræktar. Hún hafi gengið vel í fjöldamörg ár. Veðurfar og garðlönd séu góð við fjörðinn. Þar séu kartöflur snemmsprottnar. 

„Þannig að það er hægt að byrja snemma að taka upp á sumarmarkað. Þá vantar kartöflur oft. Við höfum stílað svolítið upp á það seinni árin að koma kartöflum til Reykjavíkur.“ 

Hjalti lætur vel af afkomunni en kartöflubændur njóta ekki beinna styrkja. 

„Það er enginn styrkur til kartöflubænda. Við njótum reyndar tollverndar að einhverju marki gegn erlendum kartöflum.“

Bóndinn á Seljavöllum áætlar að akrarnir skili 400-500 tonnum af kartöflum á markað.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Hjalti er með 24 hektara af kartöfluökrum og einhver sagði að hann væri einn stærsti einstaki bóndinn í greininni. Við spurðum hann beint hvort hann væri stærsti kartöflubóndi á Íslandi: 

„Ég ætla nú ekki að fullyrða um það. Ég veit ekki hvað menn eru að leggja inn. En við erum að framleiða svona milli 400 og 500 tonn á markað af kartöflum á ári,“ svarar Hjalti Egilsson á Seljavöllum. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×