Innlent

Reikna með hreyfanlegum bar á öldrunarheimilum Akureyrar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sparar tíma, fyrirhöfn, peninga að fá vínveitingaleyfi.
Sparar tíma, fyrirhöfn, peninga að fá vínveitingaleyfi. Vísir/vilhelm
„Ég held að við séum ekkert að leggja frá okkur lyfjaglösin og snúa okkur að einhverjum öðrum lyfjaglösum,“ segir Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar. Öldrunarheimilin hafa sent inn umsókn um vínveitingaleyfi.

„Við tókum það skref núna að ákveða að sækja um vínveitingaleyfi til þess að gera okkur lífið aðeins auðveldara,“ segir Halldór í samtali við Vísi. Um ellefu ára skeið hafi öldrunarheimilin staðið fyrir mánaðarlegu kráarkvöldi og fáist vínveitingaleyfið verður auðveldara fyrir öldrunarheimilin að standa fyrir þeim.

„Þannig að við þurfum ekki endilega að fara í Ríkið til þess að kaupa bjóra eins og undanfarin ellefu ár. Við getum svo boðið fólki léttvín og annað tilheyrandi ef það óskar eftir því eða ef tilefni standa til,“ segir Halldór.

Halldór S. Guðmundsson er framkvæmastjóri Öldrunarheimila Akureyrar.Mynd/Sigmar Sigrúnar Ketilsson
Hann segist með þessu vera að feta í fótspor Hrafnistu sem hefur verið með vínveitingaleyfi undanfarin ár auk þess sem að þetta sé eitthvað sem tíðkist í Danmörku og Bandaríkjunum.

„Við erum bara að bregðast við því sem hefur staðið til í takti við menningu og tímann,“ segir Halldór. Hann segir að reynsla Hrafnistu af því að hafa vínveitingaleyfi sé góð og enginn ástæða sé til þess að ætla að annað verði upp á teningnum á Akureyri.

Eftir á að afgreiða umsóknina en segir Halldór að verði hún samþykkt verði áfengið selt í mötuneytinu. Þannig geti vistmenn fengið sér léttvín eða bjór með matnum óski þeir eftir því.

Auk þess er gert ráð fyrir að komið verði upp hreyfanlegum bar sem hægt verði að færa um húsið til vistmanna sé tilefni til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×