Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í beinni

Um fimm hundruð manns særðust í Katalóníu þegar spænska lögreglan reyndi að stöðva atkvæðagreiðslu um sjálfstæði héraðsins. Við fjöllum nánar um þetta í kvöldfréttum Stöðvar 2 kl. 18:30.

Í fréttatímanum fjöllum við einnig um tjónið sem varð vegna vatnavaxtanna á Austur- og Suðausturlandi en forstjóri Viðlagatrygginga Íslands reiknar með kröfum upp á tvö hundruð milljónir króna vegna tjónsins á borð stofnunarinnar.

Við ræðum við konu sem telur fullvíst að sér hafi verið byrlað nauðgunarlyf á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Hún gagnrýnir viðbrögð dyravarðar og lögreglu í kjölfar atviksins en í stað þess að fá viðeigandi aðstoð inni á skemmtistaðnum var henni vísað á dyr.

Við fjöllum líka um átak lögreglu gegn ólöglegri atvinnustarfsemi en á borði lögreglunnar eru núna þrjátíu slík mál. Mörg málanna varða hælisleitendur sem hafa ekki atvinnuleyfi en voru engu að síður í vinnu hér á landi.

Í fréttatímanum verður jafnframt umfjöllun um tvöföldun vegarins milli Hveragerðis og Selfoss sem er einn hættulegasti vegarkafli landsins. Þá ætlum við að kynna okkur kríuna, þann magnaða fugl, en elsta kría sem hefur fundist hér á landi var 35 ára. Reiknað hefur verið út um að hún hafi verið búin að fljúga sem samsvarar þremur leiðum til tunglsins þegar hún náði þeim aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×