Innlent

Íbúar á Björgum á Patreksfirði uggandi yfir slysahættu í hverfinu

VESTURBYGGРÍbúar í hverfinu Björgum á Patreksfirði hafa skilað inn undirskriftalista og kallað eftir því við bæjarstjórn Vesturbyggðar að gerðar verði úrbætur á umferðaröryggi við götuna. Í bréfi íbúa til bæjarstjórnar segir að miklar breytingar hafi orðið á íbúasamsetningu í hverfinu, börnum hafi fjölgað mikið og umferðin inn í bæinn á sama tíma aukist. Bent er á að íbúar á Björgum hafi vakið athygli á sömu atriðum á íbúafundi árið 2015. Leiknir Fannar Thoroddsen, íbúi á Björgum, er óhress með stöðu mála. „Ég heyrði að það ætti að gera hringtorg hér fyrir ofan, en það er bara ekkert pláss þar fyrir hringtorg að mínu mati. Það verður að vera eitthvað róttækt, til dæmis að setja undirgöng undir veginn. Þegar dóttir mín hjólar af stað að heiman, þá stressast maður allur upp.“ Leiknir bendir á breytinguna í íbúasamsetningu hverfisins. „Fyrst varð íbúafækkun hér á Patreksfirði yfir einhvern tíma, en núna er bara allt orðið fullt af börnum. Það eru bílar að koma á 90 kílómetra hraða þarna niður því þetta er þjóðvegur, þótt hámarkshraðinn þarna eigi að vera 50 kílómetrar á klukkustund. Svo er ekki vel lýst þarna. Ég er í rútuakstri og hef séð börn birtast bara allt í einu þarna, það er ekki spurning um hvort það verði slys þarna, heldur hvenær, það er bara staðreynd. Það er myrkrið eina sem tekur við börnunum á þessari leið.“ Bæjarráð Vesturbyggðar hefur ítrekað þann vilja sinn í ályktun að endurbætur verði gerðar á svæðinu. – aig



Fleiri fréttir

Sjá meira


×