Erlent

Fjölmenn mótmæli í Rúmeníu

Atli Ísleifsson skrifar
Um 30 þúsund söfnuðust saman á götum Búkarest í gær.
Um 30 þúsund söfnuðust saman á götum Búkarest í gær. Vísir/AFP
Tugþúsundir komu saman á götum rúmensku höfuðborgarinnar Búkarest í gær til að mótmæla fyrirhuguðum breytingum á dómskerfi landsins. Breytingarnar myndu fela í sér aukin pólitísk afskipti af dómskerfinu og vilja mótmælendur meina að þær munu torvelda baráttuna gegn spillingu í landinu.

Mótmælendur hrópuðu slagorð á borð við „Þjófar! Þjófar!“ fyrir utan stjórnarbyggingar í höfuðborginni. Áætlað er að um 30 þúsund manns hafi mótmælt í Búkarest og um 20 þúsund í öðrum borgum.

Ríkisstjórn Rúmeníu, sem leidd er af Jafnaðarmönnum, vill afgreiða málið fyrir árslok, en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, erlendir erindrekar og þúsundir dómara hafa mótmælt fyrirhuguðum breytingum.

Saksóknarar í landinu hafa rannsakað mörg hundruð háttsettra embættismanna og stjórnmálamanna á síðustu árum vegna meintrar spillingar. Þannig hafa eignir Liviu Dragnea, leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins, verið kyrrsettar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×