Starfsleyfi Uber í London hefur verið hafnað af borgaryfirvöldum og hefur leigubílafyrirtækið áfrýjað ákvörðuninni til dómstóla. Fréttaveita Reuters greinir frá þessu.
Í ákvörðuninni segir að aðferðum fyrirtækisins við að tilkynna glæpi sé ábótavant og að bakgrunnur bílstjóra þess sé illa kannaður. Málið verður tekið fyrir á mánudaginn en búist er við að aðalmeðferð fari fram á næsta ári.
Uber hefur á sínum snærum um 40 þúsund bílstjóra í London og er nokkuð ljóst að um er að ræða eina af mikilvægustu borgum evrópska markaðarins hjá fyrirtækinu.
Endurnýjun starfsleyfis Uber hefur einnig verið hafnað í Sheffield og stefnir allt í hið sama í Brighton, þar sem einungis sex mánuðir eru eftir af leyfinu.
Það hefur verið hart í ári hjá Uber á þessu ári. Háttsettir stjórnendur innan fyrirtækisins hafa verið sakaðir um kynferðislega áreitni og sagt af sér í kjölfarið. Auk þess leyndi fyrirtækið því að tölvuþrjótar hefðu komist yfir persónuupplýsingar um 57 milljón viðskiptavina.

