Erlent

Mannskæð árás í New York: Keyrði á hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá vettvangi
Frá vettvangi Vísir/EPA
Lögreglan í New York segir að fjölmargir séu látnir eða særðir eftir að ökumaður ók upp á gangstétt og keyrði á vegfarendur á neðri hluta Manhattan, skammt frá World Trade Center. Talið er að minnst átta hafi látist.

Eftir að hafa keyrt niður hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur var bílnum klesst á annan bíl. Fór ökumaðurinn þá úr bílnum vopnaður byssu. Lögregla á vettvangi brást fljótt við og skaut manninn. Hann er nú í haldi lögreglu.

Þetta segir lögreglan í New York á Twitter-síðu hennar. Fyrstu fregnir gáfu til kynna að um skotárás hafi verið að ræða en svo virðist ekki vera miðað við upplýsingar lögreglu.

New York Times greinir frá því að ökumanninum hafi tekist að aka nokkuð langa vegalend eftir hjólastígnum. Þá hefur blaðið eftir heimildarmönnum sínum að byssan sem ökumaðurinn var með hafi ekki verið ekta. Þá segja heimildarmenn blaðsins einnig að maðurinn hafi kallað „Allahu Akbar“ eða „Guð er mikill“ á arabísku.

Yfirvöld rannsaka árásina sem hryðjuverk en Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, segir að ekkert bendi til þess að árásarmaðurinn hafi verið hluti af einhverjum hóp, hann hafi líklega verið einn að verki.

Í frétt New York Post er vettvangi árásinnar lýst sem „blóðbaði.“ en NBC í New York hefur eftir embættismanni borgarinnar að maðurinn hafi keyrt niður fjölmarga vegfarendur. Fjölmörg vitni urðu að atvikinu. CNN hefur eftir heimildarmönnum innan lögreglunnar að sex hafi látist í árásinni.

Málið er til rannsóknar hjá lögreglu. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna hefur tjáð sig um árásina. Þar segir hann útlit fyrir að „mjög veikur“ aðili hafi framið árásina. Slíkt sé ekki í boði í Bandaríkjunum.

Fyrirsögn þessarar fréttar hefur verið breytt samkvæmt nýjustu upplýsingum. Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×